Keflavík komið í annað sæti Domino's kvenna
Keflavík byrjar ekki vel eftir hlé. Liðið mætti Skallagrími í Borgarnesi í gær og töpuðu leiknum 76:64. Á sama tíma vann Valur KR og situr því eitt á toppnum en Keflavík færist niður í annað sæti deildarinnar, jafnt Haukum að stigum.
Leikurinn í gær var jafn framan af og upp úr miðjan fyrsta leikhluta var Keflavík yfir 5:11 og virtust ætla að halda sínu striki. Keflvíkingar gerðu hins vegar aðeins tvö stig á síðustu mínútu leikhlutans og heimakonur náðu forystunni 15:13.
Það var mikið jafnræði með liðunum í öðrum leikhluta en Borgnesingar gáfu aðeins meira í lokamínúturnar og fóru með 35:30 inn í hálfleikinn.
Í þriðja leikhluta fór að síga á ógæfuhliðina hjá Keflavík og Skallagrímur jók forystu sína jafnt og þétt. Keflvíkingar gerðu ekki stig síðustu tvær og hálfa mínútuna á meðan heimaliðið gerði níu stig og kom sér í þægilega átján stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 58:40.
Undir lok leiksins, í stöðunni 74:50, reyndu Keflvíkingar örvæntingarfullt að láta að sér kveða en þá var það orðið of seint. Keflavík gerði fjórtán stig í röð og minnkuðu muninn í tíu stig, Borgnesingar áttu svo síðustu körfuna og lokatölur urðu 76:54.
Anna Ingunn Svansdóttir var atkvæðamikil í leiknum og setti niður sex þriggja stiga körfur, hún var alls með 27 stig. Daniela Wallen var með tuttugu stig, tuttugu fráköst og sjö stoðsendingar.