Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík komið áfram: Enn skorar Hörður
Fimmtudagur 28. júlí 2005 kl. 23:40

Keflavík komið áfram: Enn skorar Hörður

Keflvíkingar eru komnir í 2. umferð í undankeppni UEFA bikarsins eftir 2-0 sigur á FC Etzella á Laugardalsvelli. Keflvíkingar unnu 6-0 samanlagt í leikjum liðanna og gerði Hörður Sveinsson 5 af 6 mörkum Keflavíkur í leikjunum, 4 mörk í Lúxemborg og eitt á Laugardalsvelli. Gunnar Hilmar Kristinsson gerði annað mark Keflavíkur.

Hörður hefur nú jafnað markamet Hermanns Gunnarssonar og Ríkharðs Daðasonar en haldi piltur uppteknum hætti nær hann næsta víst að jafna met Mihajlo Bibercics sem telur 6 mörk.

Gestirnir frá Lúxemborg hófu leikinn af krafti í kvöld og pressuðu vel á Keflvíkinga. Heimamenn fóru sér hægt á meðan og illa gekk að halda boltanum innan liðsins framan af.

Þegar líða tók á fyrri hálfleik komust Keflvíkingar jafnt og þétt inn í leikinn og tóku að lokum öll völd á vellinum. Á 15. mínútu sambasólaði Hólmar Örn sig framhjá tveimur varnarmönnum Etzella og sendi boltann fyrir markið á kollinn á Guðmundi Steinarssyni sem skallaði rétt yfir markið.

Fyrsta marktækifæri gestanna í leiknum kom á 26. mínútu en það átti Luc Mischo en hann skallaði þá boltann framhjá marki Keflvíkinga.

Sóknir Etzella voru fremur bitlausar og á köflum var eins og þeir hefðu engan áhuga á því að komast áfram í keppninni.

Þegar um 4 mínútur voru til loka fyrrihálfleiks áttu Keflvíkingar skot í slá, stöng og svo framhjá allt í einni sókn en inn vildi boltinn ekki.

Staðan í hálfleik því 0-0 og Keflvíkingar mun sterkari.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 75. mínútu og það gerði Hörður „sjóðheiti“ Sveinsson er boltinn barst til hans eftir hamagang í teignum, skotið reið af og inn fór boltinn. Keflavík 1 – 0 Etzella. Markið kom er Keflvíkingar voru orðnir einum leikmanni færri en Guðjón Antoníusson fékk að líta 2 gul spjöld í leiknum og varð því frá að víkja.

Á 83. mínútu var Hörður enn á ferðinni en í þetta skipti gaf hann fína sendingu inn á Gunnar Hilmar Kristinsson sem renndi sér á boltann áður en Marc Reuter, markvörður Etzella, náði til hans og Keflvíkingar því komnir í 2-0.

Keflvíkingar eru komnir áfram eftir 6-0 samanlagðan sigur en dregið verður í hádeginu á morgun í aðra umferð keppninnar.

„Ég er mjög sáttur við sigurinn og að við hefðum náð að halda hreinu. Það eru skemmtileg lið í pottinum þegar dregið verður á morgun og það verður spennandi að sjá hverjum við mætum,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn.

VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]

 

 

 

 

 



 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024