Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík jafnaði í tvígang í fjörugum leik
Markvörður Stjörnunnar stóð fyrir sínu í kvöld og bjargaði nokkrum sinnum mjög vel. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 16. júní 2022 kl. 22:12

Keflavík jafnaði í tvígang í fjörugum leik

Keflavík og Stjarnan áttust við í býsna fjörugum og spennandi leik í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem Keflvíkingar lentu tvisvar undir en komu til baka í bæði skiptin og 2:2 jafntefli varð niðurstaðan.

Heimamenn hófu leikinn af miklum krafti og settu talsvert púður í sóknina, voru ógnandi fram á við og sköpuðu nokkur hálffæri sem þeim tókst ekki að nýta. Þvert gegn gangi leiksin voru það gestirnir sem skoruðu fyrsta markið (26') þegar þeir sóttu hratt, það leit varð smá klaft inni í teig Keflavíkur og heimamönnum tókst ekki að koma boltanum frá. Stjörnumenn nýttu sér það og skoruðu með hnitmiðuðu skoti í fjærhorn sem Sindri Kristinn í marki Keflavíkur átti ekki roð í.

Við markið lifnuðu leikmenn Stjörnunnar aðeins við og tóku að sækja meira en Keflvíkingar voru ekki búnir að segja sitt síðasta. Þeir héldu áfram að vera ógnandi og á 35. mínútu átti Adam Ægir Pálsson glæsilegt skot sem var algerlega óverjandi fyrir markvörð Stjörnunnar. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjarnan komst yfir á nýjan leik fimm mínútum síðar (40') þegar Sindri Kristinn virtist hafa hendur á boltanum en sóknarmaður Stjörnunnar fór af krafti í tæklingu við hann, boltinn hrökk framhjá Sindra og Stjarnan náði að koma honum í netið – mjög vafasamt mark en mark engu að síður. Staðan 1:2 í hálfleik.

Keflvíkingar hafa sennilega nagað sig í handarbökin í hálfleik að hafa ekki nýtt betur sóknir sínar í fyrri hálfleik. Þeir héldu áfram að sækja í seinni hálfleik og oft skall hurð nærri hælum við Stjörnumarkið en á 68. mínútu kom seinna jöfnunarmark Keflvíkinga. Þá sýndi markvörður Stjörnumanna enn eina glæsimarkvörsluna þegar hann varði frá Joey Gibbs en Dani Hatakka náði frákastinu og kom honum í netið.

Undir lok leiks fékk Ivan Kaliuzhnyi að líta sitt annað gula spjald (89') og Keflvíkingar léku uppbótamínúturnar manni færri.

Gibbs með skalla þegar um stundarfjórðungur var eftir en boltinn hafnaði í þverslánni.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og munu fleiri myndir birtast á vf.is í fyrramálið