Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík í undanúrslitin eftir sigur á FH
Fimmtudagur 30. júlí 2009 kl. 21:18

Keflavík í undanúrslitin eftir sigur á FH


Keflavík vann glæsilegan sigur á FH í 8-liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu í kvöld, 3-1.


Keflvíkingar, sem voru á heimavelli, eru eina liðið sem höfðu unnið FH í sumar fyrir þennan leik og virðast hafa gott tak á þeim.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Eftir rólega byrjun á Sparisjóðsvellinum hrukku Keflvíkingar í fluggírinn þar sem Símun Samuelsen fór fyrir þeim.


Hann lagði upp fyrsta mark leiksins þegar hann gaf fyrir markið og í Tommy Nielsen sem skoraði sjálfsmark á 20. mínútu.


Símun var svo aftur á ferð í upphafi seinni hálfleiks þegar hann skoraði laglegt mark eftir góðan undirbúning Hólmars Arnar Rúnarssonar.


Eftir um klukkustundarleik skoraði hann svo sitt annað mark þegar hann setti knöttinn inn eftir fyrirgjöf Alen Sutej.


Keflvíkingar voru með öll tögl og hagldir á vellinum en urðu svo fyrir því að missa mann útaf þegar Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, sýndi Jóhanni B Guðmundssyni sitt annað gula spjald og það rauða í kjölfarið.


Eftir það óx Hafnfirðingum ásmegin og þeir sóttu af miklum þunga síðasta hálftímann. Allt sem þeir fengu upp úr krafsinu var hins vegar eitt mark og var það Atli Guðnason sem var þar á ferðinni.


Keflvíkingar halda vel í hefðina sem mikið bikarlið og geta bætt við þriðja bikartitilinum á sex árum ef allt gengur að þeirra óskum.


Þess má geta að Haraldur Guðmundsson, sem er nýkominn aftur til Keflavíkur eftir áralanga dvöl erlendis, lék sinn fyrsta leik með liðinu í kvöld og stóð sig vel..