Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík í sögubækurnar?
Miðvikudagur 23. apríl 2008 kl. 12:35

Keflavík í sögubækurnar?

Keflvíkingar geta landað sínum níunda Íslandsmeistaratitli í körfuknattleik á fimmtudagskvöld þegar þriðji leikur deildarmeistaranna og Snæfells fer fram í Toyotahöllinni í Keflavík kl. 19:15. Staðan í einvíginu er 2-0 Keflavík í vil en Snæfellingar hafa ekki átt roð til þessa í grimma Keflavíkurvörnina. Keflvíkingar unnu sterkan sigur á bikarmeisturum Snæfells í Stykkishólmi á mánudag og bendir fátt annað til þess en að hetjunum úr Hólminum verði sópað inn í sumarið.
 
Víkurfréttir ræddu við Einar Einarsson aðstoðarþjálfara Keflavíkurliðsins og hann var vissulega sáttur við stöðu mála en sagði nóg eftir. „Við höfum verið eitt besta varnarliðið í allan vetur en kannski ekki fengið kredit fyrir það en við erum að sýna það núna í úrslitakeppninni að við getum alveg spilað vörn,“ sagði Einar en undirstrikaði að mótið væri hvergi nærri búið. „Staðan er bara 2-0. Það má ekki gleyma því annað kvöld svo við erum bara sallarólegir en glaðir yfir stöðunni en nóg er eftir. Nú er það bara undir okkur komið að klára þetta og nú reynir virkilega á karakterinn í liðinu,“ sagði Einar sem gat vart orða bundist yfir góðum stuðningi við Keflavíkurliðið. „Stuðningurinn sem við höfum fengið að undanförnu er frábær og að sjá strákana í Trommusveitinni halda áfram að syngja 10-15 mínútum eftir leik í Hólminum var bara frábært og þetta gefur okkur aukinn kraft,“ sagði Einar.
 
Ef Keflvíkingar verða Íslandsmeistarar þetta árið halda þeir áfram að slá metin í körfuboltanum. Fyrr í úrslitakeppninni varð karlaliðið fyrst liða til þess að komast upp úr einvígi eftir að hafa lent 2-0 undir. Ef karlaliðið verður Íslandsmeistari á þessari leiktíð jafnar félagið met ÍR þar sem karla- og kvennalið félagsins verða Íslandsmeistarar á sömu leiktíð. ÍR hefur alls sex sinnum orðið Íslandsmeistari með karla- og kvennalið sín á sama ári en það gerðist síðast leiktíðina 1975-1975. Þessum árangri hafa Keflvíkingar náð fimm sinnum, síðast leiktíðina 2004-2004.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024