Keflavík í fallsæti eftir tap á heimavelli
Keflavík tapaði í kvöld fyrir Tindastóli í níundu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Fyrir leikinn munaði einu stigi á liðunum sem voru í sjöunda og áttunda sæti en Tindastóll jók muninn í fjögur stig.
Á sama tíma vann Þróttur, sem var í neðsta sæti, sinn leik og fór með sigrinum einu stigi upp fyrir Keflavík sem er komið í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar.
Keflavík - Tindastóll 0:2
Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið sem eru í harðri baráttu í neðstu sætunum og þurftu á stigunum að halda. Baráttan var því í fyrirrúmi frá fyrstu mínútu en það voru gestirnir sem skoruðu eina mark fyrri hálfleiks (28'). Markið skoraði Jordyn Rhodes með skalla eftir hornspyrnu.
Eftir markið sótti Keflavík í sig veðrið og var nálægt því að jafna leikinn þegar Saorla Lorraine Miller gaf boltann á Melanie Claire Rendeiro sem var í dauðafæri en góður markvörður Stólanna varði vel.
Keflvíkingar hófu seinni hálfleik nokkuð ákveðið en fljótlega var komið jafnvægi á leikinn. Gestirnir hörfuðu aðeins aftar á völlinn en voru skeinuhættar í skyndisóknum sínum.
Aníta Lind Daníelsdóttir átti gott skot sem fór hársbreidd framhjá stönginni og þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka fékk Miller boltann á miðjunni þar sem hún var með allt opið fyrir framan sig. Miller var búin að vera mikið í boltanum allan leikinn og sennilega átt lítið eftir á tankinum en varnarmenn gestanna náðu að elta hana uppi og komast fyrir skot hennar inni í teignum. Hættulegasta færi Keflvíkinga fram að þessu en Miller var ekki hætt því skömmu síðar átti hún ágætis skot sem hafnaði í hliðarnetinu.
Keflvíkingar reyndu allt hvað þær gátu til að jafna leikinn en á 86. mínútu gerðu Stólarnir út um leikinn þegar þær sóttu hratt og fámenn aftasta lína Keflavíkur náði ekki að stöðva Rhodes sem skoraði annað mark sitt í leiknum (86').
Í uppbótartíma var fyrirliðinn Kristrún Ýr Holm mætt í sóknina og átti stórhættulegan skalla en boltinn rétt framhjá stönginni. Saorla Miller átti sömuleiðis góðan skalla sem virtist á leið í markið en Monica Elisabeth Wilhelm, markvörður Tindastóls, sýndi geggjaða markvörslu en hún átti mjög góðan leik í kvöld.
Þar með rann síðasta tækifærið út í sandinn og Keflavík varð að sætta sig við tap.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, myndaði það sem gekk á í leiknum og er myndasafn neðar á síðunni.