Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík í Evrópubikarnum
Miðvikudagur 30. júní 2004 kl. 17:04

Keflavík í Evrópubikarnum

Á næstu leiktíð mun körfuknattleikslið Keflavíkur taka þátt í Bikarkeppni Evrópu (FIBA Europe Cup). Keflvíkingar tóku þátt í þessari keppni á síðasta ári með góðum árangri og ætla eflaust að gera betur í þetta sinn.
Alls taka 33 lið þátt í keppninni að þessu sinni, en dregið verður í riðla á laugardaginn, 3. júlí, í München í Þýskalandi.

Fram kemur á heimasíðu Keflvíkinga að félagið hyggst senda fulltrúa sem munu vera á staðnum og reyna nota tækifærið, líkt og í fyrra, til að ná hagstæðum leikdögum með tilliti til ferðakostnaðar. Í fyrra tókst t.d. að leika tvo leiki í sömu ferðinni og sparar það töluvert fé. Ekki er víst hvernig þessum liðum verður raðað í riðla, en ljóst er þó að niðurröðunin verður svæðisbundin. Þannig er líklegt að Keflvíkingar lendi í riðli með liðum frá Danmörku, Frakklandi og Portúgal.

Keflvíkingar eru þessa dagana að fara í gang með átak til fjáröflunar fyrir þátttökuna og verður þar m.a. um að ræða sölu á humri og salernispappír.

Auk þátttöku í Bikarkeppni Evrópu mun Keflavík einnig leika á Meistaramóti félagsliða á Norðulöndum í haust. Sú keppni verður leikin á fjórum dögum í lok september. Bikarkeppni Evrópu hefst væntanlega í nóvember.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024