Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík hrósaði sínum fyrsta sigri í sumar
Föstudagur 23. maí 2008 kl. 23:14

Keflavík hrósaði sínum fyrsta sigri í sumar

Keflavík vann sinn fyrsta sigur í Landsbankadeild kvenna í ár með 2-1 sigri á Fylki en leikurinn fram fór á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í kvöld. Keflavík komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Lilju Írisi Gunnarsdóttur og Danka Podovac en Lizzy Karoly minnkaði muninn fyrir Fylki í upphafi seinni hálfleiks. Fylkir sótti meira í seinni hálfleik en vörn Keflavíkur stóðst álagið og fyrsti sigur ársins því staðreynd.
Keflavík léku með sterkan vind í fangið í fyrri hálfleik en það virtist ekki hafa mikið að segja og náðu að stýra leiknum. Strax á fjórðu mínútu fékk Keflavík gott færi þegar Vesna Smiljkovic komst ein í gegnum vörn Fylkis en skot hennar fór framhjá markinu. Strax í næstu sókn áttu Fylkisstúlkur gott skot af löngu færi sem hafnaði í þverslánni. Keflvíkingar tóku hins vegar forystuna á 35 mínútu þegar Lilja Íris Gunnarsdóttir fyrirliði, skallaði boltann glæsilega í fjærhornið eftir hornspyrnu. 
Keflavík héldu áfram að pressa að marki Fylkis og undir lok fyrri hálfleiks komst Vesna Smiljkovic aftur í opið færi en Björk Björnsdóttir í marki Fylkis sá við henni. Í næstu sókn skoraði svo Danka Podovac með skoti úr miðjum teig Fylkis eftir sendingu frá Smiljkovic sem hafði prjónað sig gegnum varnarmenn Fylkis en Sara í marki Fylkis var grátlega nálægt því að verja boltann. Staðan var því 2-0 fyrir Keflavík og forustan verðskulduð.
Nokkuð jafnræði með liðunum til að byrja með í seinni hálfleik þó að Keflavík væri alltaf líklegri fyrir framan markið. Á 51. mínútu átti Guðrún Ólöf Olsen sendingu af hægri kantinum inn í teiginn sem barst til Smiljkovic sem átti gott skot úr miðjum teignum en boltinn skall í þverslánni og Keflavík óheppið að bæta ekki við marki. Á 55. mínútu dró hins vegar til tíðinda. Lizzy Karoly í liði Fylkis fékk langa sendingu inn fyrir vörn Keflavíkur og náði að komast ein í gegn og setja boltann framhjá Dúfu Dröfn í marki Keflavíkur og staðan orðin 2-1. Fylkisstúlkur fögnuðu markinu vel og innilega en markið kom þó nokkuð gegn gangi leiksins.
Eftir markið komst Fylkir betur inn í leikinn og náðu að skapa sér nokkur hálffæri en nokkuð vantaði upp á að láta kné fylgja kviði. Á 78. mínútu fékk Ragna Björg Einarsdóttir í Fylki að líta rauða spjaldið eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald fyrir að stoppa boltann með hendinni. Fylkisstúlkur þurftu því að leika manni færri síðustu 12 mínúturnar. Fylkisstúlkur gerðu allt sem þær gátu til að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og Keflavík landaði sínum fyrsta sigri á þessari leiktíð.
Keflavík er þar með komið með 4 stig eftir þrjá leiki í Landsbankadeildinni og er í 4. sæti. Keflavík mætir Stjörnunni í næsta leik en sá leikur fer fram þriðjudaginn 3. júní í Garðabænum.
Byrjunarlið Keflavíkur í leiknum:
Dúfa Dröfn Ásjörnsdóttir, markvörður, Inga Lára Jónsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Elísabet Ester Sævarsdóttir, Lilja Íris Gunnarsdóttir, Danka Padovac, Vesna Smiljkovic, Helena Rós Þórólfsdóttir, Guðrún Ólöf Olsen, Linda Rós Þorláksdóttir og Björg Magnea Ólafsdóttir.
 
Byrjunarlið Fylkis í leiknum:
Björk Björnsdóttir, markmaður, Tinna Bjarndís Bergþórsdóttir, María Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Hekla Eiríksdóttir, Lovísa Sólveig Erlingsdóttir, Ruth Þórðar Þórðardóttir, Lára Björg Gunnarsdóttir, Lizzy Karoly, Sara Sigurlásdóttir og Laufey Björnsdóttir.
 

VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024