Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík hélt Njarðvík í 63 stigum í Ljónagryfjunni
Sunnudagur 28. október 2007 kl. 22:32

Keflavík hélt Njarðvík í 63 stigum í Ljónagryfjunni

Keflavík sigraði granna sína í Njarðvík 63-78 í Iceland Express deild karla í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld. Bæði lið voru ósigruð fyrir leikinn og var því um uppgjör toppliðanna að ræða.

 

Keflavík byrjaði betur í leiknum og skoraði Tommy Johnson fyrstu 5 stig leiksins. Njarðvíkingar áttu í erfiðleikum með að komast inn í leikinn, og náðu Keflvíkingar góðu forskoti snemma leiks. Góður varnaleikur hjá Keflavík skóp því 14 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 14-28.

 

Njarðvíkingar komu ákveðnari til leiks í 2. leikhluta, en Keflavík var þó alltaf skrefinu á undan. Charleston Long lenti snemma í villuvandræðum og var kominn með 3 villur snemma í öðrum leikhluta. Njarðvíkingar minnkuðu jafnt og þétt forskot Keflavíkur en tókst ekki að ná forskotinu niður fyrir 5 stig. Hjá Keflavík var það Tommy Johnson sem dróg vagninn en hann átti mjög góðan fyrri hálfleik. Undir lok 2. Leikhluta gerðist umdeilt atvik þar sem Tommy Johnson virtist skalla til Jóhanns Árna Ólafsson, en dómarar leiksins virtust ekki sjá atvikið. Staðan í hálfleik var 38-44, Keflavík í vil.

 

Baráttan var allsráðandi í 3. leikhluta. Keflavík komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik en Njarðvíkingar tóku síðan við sér og skiptust liðin á að skora. Bæði lið voru að spila góða vörn en að sama skapi var sóknarleikur liðanna ekki til að hrópa húrra fyrir. Njarðvíkingar náðu að minnka munninn niður í 4 stig 52-56, áður en 3. leikhluti var úti og stefndi í spennandi lokasprett.

 

Leikurinn var í járnum í byrjun 4. leikhluta og skipust liðin á að skora, en þá kom góður kafli hjá Keflvíkingum og setti Magnús Gunnarsson niður mikilvægar þriggja stiga körfur. Njarðvíkingar voru sjálfum sér verstir og misstu boltann hvað eftir annað og á sama tíma voru Keflvíkingar að hirða nær öll fráköst báðu megin vallarins. Keflvíkingar gengu á lagið á meðan hvorki gekk né rak hjá Njarðvík. Keflavík vann því verskuldaðan sigur 63-78.

 

Njarðvík skoraði einungis 25 stig í seinni hálfleik og það kann ekki góðri lukku að stýra. Lykilmenn eins og Hörður Axel, Jóhann Árni og Guðmundur Jónsson náðu sér ekki á strik og var það of mikið gegn sterku liði Keflavíkur sem var að spila oft á tíðum frábæra vörn. Hjá Njarðvík átti Brenton Birmingham fína spretti og skoraði alls 16 stig. Næstur á eftir honum kom svo Friðrik Stefánsson með 14 stig.

 

Hjá Keflavík átti Tommy Johnson frábæran fyrri hálfleik og skoraði þar öll sín 18 stig en síðan ekki söguna meir. B.A. Walker var einnig með 18 stig. Liðsheildin og baráttan skóp sigurinn hjá Keflavík og spiluðu þeir agaðan varnarleik.

 

Næstu leikir hjá þessum liðum eru næsta fimmtudag en þá tekur Keflavík á móti ÍR í Sláturhúsinu, en Njarðvík kíkir í heimsókn til KR-inga í DHL höllina.

 

Tölfræði leiksins

 

Staðan í deildinni

 

Texti: Jón Júlíus Karlsson, [email protected]

 

VF-Myndir/ Jón Björn Ólafsson, [email protected]

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024