Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík heldur toppsætinu eftir góðan Eyjasigur
Joey Gibbs misnotaði víti, náði frákastinu en náði ekki að setja boltann inn fyrir línuna. VF-myndir/hilmarbragi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 29. september 2020 kl. 18:53

Keflavík heldur toppsætinu eftir góðan Eyjasigur

„Þetta var góður sigur því við vorum ekki sannfærandi í fyrri hálfleik og heppnir að vera ekki í verri stöðu. En við bættum okkur í síðari hálfleik og lönduðum góðum sigri. Það er ekkert leiðinlegt að vinna Eyjamenn tvisvar sinnum. Við höldum samt bara áfram með sama markmið að einbeita okkur að einum leik í einu,“ sagði Franz Elvarsson, fyrirliði Keflvíkinga sem unnu Eyjamenn 3:1 á Nettóvellinum í Lengjudeild karla í knattspyrnu á þriðjudag.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og Davíð Snær Jóhannsson kom þeim yfir á 7. mínútu. Hann fékk boltann inn í teig Eyjamanna og skoraði fyrsta mark leiksins. Hann átti síðan gott skot sem markvörður ÍBV varði. Keflvíkingar fengu svo víti á 40. mínútu þegar brotið var á Helga Þór Jónssyni. Joey Gibbs fór á punktinn en Halldór markvörður varði. Gibbs fékk annað tækifæri í frákastinu en aftur varði Halldór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mínútu síðar skoraði Gary Martin með skalla og jafnaði leikinn. Aðstoðardómari veifaði flaggi um að boltinn hafi verið farinn yfir línuna. Heimamenn voru ekki sáttir og Sindri markvörður fékk gula spjaldið. 

Keflvíkingar mættu mun sterkari í síðari hálfleik og Ari Steinn Guðmundsson sem kom inn á í hálfleik kom þeim í 2:1 eftir sendingu frá Joey Gibbs. Ari kom upp vinstri kantinn og kláraði dæmið. Fyrirliði Keflvíkur, Franz Elvarsson kom bítlabæjarliðinu í 3:1 þegar heimamenn fengu annað víti. Varnarmaður Eyjamanna handlék boltann og Franz skoraði örugglega í mitt markið.

Keflvíkingar misstu Ara Stein útaf eftir að hafa fengið boltann tvívegis í hönd á aðeins þremur mínútum. Klaufalegt en heimamenn héldu haus og kláruðu góðan sigur.

Eftir sigurinn er Keflavík í efsta sæti með 40 stig, einu stigi meira en Fram og Leiknir, Reykjavík en á einn leik til góða gegn Grindavík sem fer fram 13. október. Næsti leikur liðsins er hins vegar á heimavelli gegn Leikni Fáskrúðsfirði laugardaginn 3. október.

Víkurfréttir ræddu við Franz fyrirliða að leik loknum.

Franz skoraði úr seinna víti Keflavíkur og kom liðinu í 3:1.

Keflavík - ÍBV| Lengjudeild karla 29. september 2020