Keflavík getur klárað dæmið í kvöld - Grindavík þarf tvo sigra
Keflavík getur tryggt sér sæti í Pepsi-deild kvenna þegar liðið mætir Hömrunum í Inkasso-deildinni á Nettó-vellinum í Keflavík í dag kl. 17.15. Keflavík er svo gott sem búið að tryggja sætið en stig í kvöld klárar málið endanlega.
Keflavíkurstúlkur eru í 2. sæti deildarinnar með 40 stig, tveimur á eftir Fylki en sex stigum á undan ÍA þegar tvær umferðir eru eftir. Keflavík vann Aftureldingu/Fram sl. föstudag 0-1 á útivelli. Natasha Anasi skoraði markið.
Grindavíkurstúlkur eru hins vegar í botnbaráttu Pepsi-deildar og þurfa helst að sigra í þeim tveimur leikjum sem eru eftir í deildinni. Næsti leikur er gegn KR sem er með 3 stigum meira og gæti þetta orðið hreinn úrslitaleikur um hvort liðið fer niður.
Grindavík lék gegn ÍBV á heimavelli sl. laugardag og tapaði 1-2. Rio Hardy skoraði mark heimakvenna sem voru klaufar í þegar ÍBV skoraði og svo virtist sem það vantaði upp á einbeitingu. ÍBV skoraði á 4. mínt. og 33. mín. en UMFG minnkaði muninn á 14. mín. út víti.
Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari VF í Grindavík á laugardag.