Keflavík fyrirmyndarfélag á Unglingalandsmótinu

Á nýafstöðnu Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið var um helgina á Selfossi voru Keflvíkingar sérlega áberandi. Félagið hlaut nafnbótina fyrimyndarfélag mótsins árið 2012 eftir vasklega framgöngu. Ólafur Ásmundsson sem var fararstjóri hópsins um helgina sagði í samtali við Víkurfréttir að árangurinn hafi verið einstaklega glæsilegur en aldrei hafa einmitt verið fleiri keppendur frá Keflvíkingum, eða 112 talsins. Ólafur sagði að Keflvíkingar hafi verið fjölmennastir keppenda fyrir utan heimamenn og verið sínu félagi til sóma jafnt innan sem utan vallar.

Keflvíkingar kræktu sér í nokkur verðlaun á leikunum í körfubolta hjá strákum og stelpum. Athygli vakti að hinn 12 ára gamli Keflvíkingur, Arnór Sveinsson sem jafnan leikur körfubolta hlaut gullverðlaun í langstökki, en þá íþrótt hafi hann ekki lagt fyrir sig áður. Arnór gerði sér lítið fyrir og bætti Landsmótsmet en það var því miður gilt vegna meðvinds.

Ólafur lofaði aðstöðuna á mótinu og sagði að aldrei hefði hann séð aðra eins umgjörð. Aðstandendur mótsins höfðu orð á því hvað Keflvíkingar væru vel merktir sínu félagi og hefðu eins og áður sagði verið sínu félagi og bæjarfélagi til sóma.