Keflavík er klúbburinn
– segir Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, að yfirstöðnu góðu tímabili knattspyrnuliða deildarinnar. Þarf meira til ef Keflavík á að ná lengra.
„Keflavík gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu,“ segir Sigurður þar sem við stöndum á skrifstofu félagsins við Sunnubraut og horfum yfir keppnissvæðið. „Hér er mikið og gott sjálfboðaliðastarf unnið og það þarf til að láta hlutina ganga upp.
Mörgum sinnum hefur nánast verið búið að knésetja félagið fjárhagslega, eða það fallið með stæl eins og 2018. Allskonar mistök hafa átt sér stað en það má ekki drepa eldmóðinn og það sem er verið að gera í sjálfboðaliðastarfinu; það er ekki bara við stjórnin heldur allir í félaginu og hjartað í stuðningsmönnunum.
Stuðningsmenn ætlast til meira og þessi spenna þarf að vera til staðar – svo er annað mál hverju við höfum ráð á. Okkar starf er að sníða stakk eftir vexti eða biðja um að stækka stakkinn.
Þeir sem styðja okkur fjárhagslega, sveitarfélagið og stuðningsaðilar, þeir þurfa að styðja betur við okkur – stakkurinn þarf að vera stærri ef við ætlum að komast lengra í efstu deild.“
Finnst þér framlag bæjarins til deildarinnar þurfi að vera meira?
„Það er svolítið erfitt að tala um framlag bæjarins því þetta eru okkar skattpeningar sem verið er að ráðstafa, þá finnst mér að framlag bæjarins mætti vera meira í takt við framlag íþróttafélagsins til samfélagsins. Það mætti vera meira samræmi í því sem íþróttafélögin veita bænum og sem bærinn veitir íþróttafélögunum.
Að hverju stefnum við sem bæjarfélag? Við stefnum að því að búa til betri bæ og betri bær verður til með betra fólki. Og hvernig verður betra fólk til? Það verður til með góðu uppeldi, menntun og að hafa eitthvað uppbyggilegt fyrir stafni. Heilsuefling er annað sem íþróttafélögin standa fyrir,“ segir Sigurður en honum finnst þáttur íþróttafélaga í uppeldisstarfi vera of lítils metinn til samanburðar við það sem er lagt t.d. til fræðslumála sveitarfélagsins.
„Þegar ég tala um að það mætti vera meira samræmi þá skal ég taka dæmi um það. Fræðslusvið sveitarfélagsins tekur langstærsta skerfinn af þessu almannafé og ef þú berð það saman við framlagið sem íþróttafélögin eru að fá þá eru hlutföllin einn á móti tuttugu, þrjátíu. Allavega er það gígantískur munur á því sem sveitarfélagið leggur til fræðslumála og því sem það leggur til íþróttamála.“
Sigurður ber saman skóla með 600 nemendur, og allan þann rekstur sem því fylgir, annars vegar og hins vegar íþróttafélag með sambærilegan iðkendafjölda. Nemandi í skóla fær um þrjátíu klukkustundir á viku undir einhverskonar handleiðslu kennara eða annars starfsfólks en barn sem stundar knattspyrnu fær fimm stundir á viku í skipulagt uppeldisstarf sem er að mestu fjármagnað með sjálfboðaliðastarfi.
„Það sem vantar er meira jafnvægi á milli þeirra fimm tíma sem börnin fá í íþróttastarfi á móti þeim þrjátíu tímum sem þeir fá í grunnskóla. Þar er hlutfallið einn á móti fimm, sex í tíma mælt á meðan kostnaðarliðurinn er einn á móti tuttugu, þrjátíu.“
Erum að vinna í sömu átt
Sigurður heldur áfram: „Ef við lítum hér út á skólalóðina þá eru átta starfsmenn á launum við að horfa á krakkana í frímínútum. Við erum með einn menntaðan þjálfara á hver tuttugu börn, þá erum við að tala um þrjá þjálfara á launum á hverri æfingu.
Í eðli sínu er þetta sambærilegt uppeldisstarf sem vinnur að því að gera betri borgara og betri bæ. Mér finnst þetta hlutfall ekki sanngjarn, ef við höfum raunverulega þennan metnað þá þarf bærinn að koma sterkari inn til að styðja við íþróttastarf með einhverjum hætti. Það má samt ekki eingöngu setja þetta á bæinn. Fyrirtækin í bænum, velunnararnir. Þessir aðilar eiga að sjá hag sinn í því að hér sé betra samfélag og ættu þess vegna að gera það sama og við erum að fara fram á við bæinn. Þeir sem hafa mesta hagsmuni af því að hér sé gott samfélag eiga að standa með okkur í þessum málum.“
Sigurður bendir á að aukist ekki framlag til íþróttamála fylgi því sú áhætta að það fjari smám saman undan þessu starfi. Sjálfboðaliðarnir þurfa hvatningu, þeir eru fólk sem kann að meta það sem fyrir þá er gert. „Það fæst með því að finna að fyrirtækin styrki þau. Að bæjarfélagið sýni þeim virðingu, að það kunni að meta það sem sjálfboðaliðarnir eru að gera fyrir bæjarfélagið sitt. Þetta er samfélagslegt verkefni sem fæstir þeirra fá nokkuð greitt fyrir. Það er þessa viðurkenningu sem vantar inn í þetta samhengi. Að mínu mati eiga allir að vinna fyrir samfélagið sitt.“
Nú hefur margoft komið til tals að það borgi sig að sameina þessi tvö félög, Keflavík og Njarðvík. Hvar stendur þú í sameiningamálum?
„Í svona litlu samfélagi, svona litlu hagkerfi eins og okkar, þá er ég allur á því að vinna saman til að gera hlutina betur – en það má aldrei vera á kostnað þess að taka út hjartað úr starfinu, sameina tvö hjörtu. Að mínu mati er alveg pláss fyrir fjögur knattspyrnufélög í bænum en þau mættu alveg vera í betri venslatengslum, vinna betur saman í því sem þau eru að gera. Hins vegar er mjög mikilvægt að passa upp á að það sé hjarta í hverju félagi. Þú heyrir alveg hvað þetta er okkur Keflvíkingum og Njarðvíkingum mikið hjartans mál. Þannig þarf þetta að vera.“
Setja einn hatt yfir allan íþróttarekstur sveitarfélagsins
Allar íþróttadeildir og íþróttafélög bæjarins eru með einhvern rekstur. Þær eru með starfsfólk, þjálfara á launum, innheimtukerfi fyrir félagsgjöld, þau eru með allskonar hluti sem falla undir daglegan rekstur. Sigurður er á því að hagkvæmast væri að sameina það starf innan félaganna og það ætti að vera einn framkvæmdastjóri félagsins sem sæi um þau mál. „Ég sé fyrir mér að daglegur rekstur allra deilda gæti fallið undir einn og sama hattinn, þar gæti sveitarfélagið komið að því máli með okkur með því að segja að þetta væri ákveðinn kjarni í starfsemi íþróttafélaganna sem verður að vera í lagi. Við verðum að innheimta það sem við eigum inni og við verðum að borga það sem við skuldum. Þetta eru hlutir sem ætti að vera haldið utan um af einhverskonar reiknistofu. Það er ekki það skemmtilegasta sem sjálfboðaliðar gera og það er ekki það sem þeir eru sterkastir í. Að mínu mati er þessi hluti of stór til að við sjálfboðaliðarnir getum ráðið við hann.
Við sjálfboðaliðarnir ættum að sinna fjármögnun á því sem snýr að rekstri vegna þjálfunar og keppni, ef það þarf að kaupa leikmenn þá sé það á höndum okkar að fjármagna þá.“
Metnaður fyrir öflugu starfi og árangri þarf að vera til staðar svo krakkarnir hafi eitthvað til að líta upp til bendir Sigurður á. „Ef hann er ekki til staðar þá er þetta eins og göngutúr í garðinum, sem er svo sem ágætur sem slíkur en þú fengir ekki eins mörg börn með þér í göngutúr. Það væri ekki sami drifkrafturinn, það þarf að vera eitthvað spennandi.
Þess vegna er afreksstarfið svo mikilvægt og sjálfboðaliðarnir brenna mikið fyrir það. Þeir brenna fyrir uppeldisstarfið, að hafa eitthvað gott fyrir börnin sín að gera og vinna þeim góðan farveg og að hafa að einhverju að stefna. Svo hins vegar afreksstarfið sem er fyrirmyndin, árangurinn, fagna sigrum og gráta töp.“
Aðstaða til íþróttaiðkunar
Í dag eru tveir fínir íþróttaleikvangar í Reykjanesbæ, annar þeirra er í Njarðvík og hinn í Keflavík. Báðir góðir þótt þeir gætu verið betri. Sigurður bendir á að uppbygging aðstöðu sé mjög mikilvæg, „... en ekki halda að hann sé aðalatriðið, það er sjálfboðaliðastarfið og eldmóðurinn sem er aðalatriðið. Sá þáttur vegur miklu þyngra en aðstaðan mun nokkurn tímann gera. Aðstaðan er samt gríðarlega mikilvæg því að án hennar eru okkur alltaf takmörk sett, við komust aldrei lengra en aðstaðan leyfir okkur,“ segir hann og heldur áfram.
„Knattspyrna er frekar plássfrek íþróttagrein, það þarf marga fermetra undir hana, þess vegna er íþróttaaðstaða skipulagsmál. Þú verður að taka frá pláss fyrir þetta. Árið 1956 tók Keflavíkurbær þetta svæði sem við erum á núna frá fyrir Keflavík. Hér höfum við átt heima og eigum heima enn í dag og erum að tala saman hér á okkar félagssvæði. Það þjónar þessu nágrenni hér, allir komast á æfingu á korteri á hjóli. Svo eru Njarðvíkinga hér skammt undan og um þeirra svæði er svipaða sögu að segja, það þjónar þeirra félagssvæði. Hvorki Keflavík né Ytri-Njarðvík eru að fara að stækka neitt að ráði í framtíðinni. Hvaða svæði eru að stækka í dag? Það eru bæjarhlutarnir Ásbrú, þar sem er gríðarlegir uppbyggingarmöguleikar, og Innri-Njarðvík sem er að stækka og stækka. Hvar er gert ráð fyrir íþróttaaðstöðu fyrir iðkendur á þessu svæði? Hún er ekki til staðar. Þau börn sem búa í þessum bæjarhlutum og hafa áhuga á að stunda knattspyrnu þurfa að ferðast um á hjóli eða í strætó í um hálftíma til þess að komast á knattspyrnuæfingu. Það er hvergi gert ráð fyrir æfingasvæðum til knattspyrnuiðkunar í þessum bæjarhlutum, þá er ég að tala um að það þarf meira en bara völl. Það þarf búningsaðstöðu, salernisaðstöðu, aðstöðu fyrir fólkið sem vinnur þar og helst eitthvað húsnæði fyrir félagsandann. Það er eins og það hafi orðið útundan í skipulagi Reykjanesbæjar og það gagnrýni ég.“
Við gerð aðalskipulags Reykjanesbæjar, sem er mikilvægasta skipulagsplaggið til að taka frá pláss fyrir þá hluti samfélagsins sem við viljum hafa í því, s.s. íbúabyggð, skóla, sundlaugar, verslanir, þjónustu, vegi og íþróttasvæði. Þar eru þær ákvarðanir teknar en þar virðist hafa gleymst að gera ráð fyrir íþróttastarfsemi í Innri-Njarðvík og á Ásbrú.
„Þegar ég byrjaði í stjórn hér þá var auglýst að verið væri að undirbúa endurskoðun skipulagsins. Þá benti ég á þetta atriði en fékk engin viðbrögð. Þegar koma að næsta áfanga aðalskipulagsins var aftur gefið tækifæri til að koma með umsagnir og ég ég kom aftur með þetta sama atriði, að það vantaði að gera ráð fyrir íþróttasvæðum í Innri-Njarðvík og á Ásbrú. Engin viðbrögð. Ég held að ég hafi bent á þetta í þriðja sinn við lokavinnslu skipulagsins en án árangurs. Ég talaði við bæjarstjórann, ég talaði við formann skipulagsnefndar – enginn áhugi á þessu og mér finnst það bara vera alvarlegt mál. Það veitti þessu enginn athygli, ekki einu sinni stjórnarandstaðan, eða minni hlutinn. Það er ekki gert ráð fyrir neinu knattspyrnusvæði á þessum stöðum og einu svörin sem ég hef fengið er að það sé verið að stefna á eitt aðalíþróttasvæði við Reykjaneshöllina – en við erum með íþróttasvæði þar. Til hvers að byggja upp nýtt þegar við erum með þetta? Þegar við erum að tala um uppbyggingu eigum við að tala um innri kjarna félaganna og getu þeirra til að stunda starfið innan frá. Til þess þarf aðstöðu úti í hverfunum en ekki eina sameiginlega aðstöðu. Það getur endað með því að við verðum með fjögur íþróttafélög í bænum en hver er framtíðarsýnin í uppbyggingu íþróttamannvirkja? Er hún bara að búa til aðalleikvang við Reykjaneshöllina og að allir þurfi að ferðast þær vegalengdir sem þarf til að fara á æfingar? Það er ekki góð framtíðarsýn að mínu mati.“
Verum stolt af því sem við leggjum til samfélagsins okkar
Við vendum nú okkar kvæði í kross og ræðum árangur Keflavíkur í sumar en Keflavík teflir fram liðum í Bestu deildum karla og kvenna í knattspyrnu. Sigurður hefur verið við stjórnvölinn síðustu fimm ár hjá knattspyrnudeild Keflavíkur en hann mun láta af formennsku á næsta aðalfundi.
„Knattspyrna á Íslandi er á mörkum þess að vera fjárhagslega rekstrarhæf. Hún er rekstrarhæf með framlagi frá sveitarfélagi, fyrirtækjum og einstaklingum. Það þarf meira til en einungis vinnuframlag sjálfboðaliða. Það verða allir miklir Keflvíkingar þegar vel gengur ... og þeim fjölgar þegar þannig er.“
Árangur Keflvíkinga í ár fór fram úr björtustu vonum og spádómum flestra en báðum liðum hafði verið spáð falli. Keflavík hafnaði í áttunda sæti Bestu deildar kvenna og svo má leika sér að því í hvaða sæti liðið endaði í Bestu deild karla. Ef stigin eru talin varð Keflavík í fimmta sæti – eða hafnaði Keflavík í sjöunda sæti fyrir að vinna neðri hlutann.
„Allra stærst er að Keflavík er klúbburinn,“ segir Sigurður að lokum. „Keflavík er klúbburinn sem hjálpar ungu fólki að búa sér til drauma, vinna að þeim og láta þá rætast. Í ár urðu leikmenn frá okkur atvinnumenn, aðrir komust í landslið, þar á meðal A-landslið, eða unnu aðra sigra. Við eigum að líta keik á okkur og vera stolt af því sem við erum að leggja til samfélagsins okkar.“
Ég skil fullkomlega þegar leikmennirnir okkar vilja taka skref upp á við og fara í atvinnumennsku til útlanda. Ég skil líka vel ef leikmenn vilja stíga niður fyrir sig, minnka við sig og fara til neðrideildarliða. Það er mikið álag sem fylgir því að spila í efstu deild. Ég á hins vegar mjög erfitt með að skilja þegar leikmenn vilja stíga til hliðar og fara að leika með öðrum liðum í sömu deild, sem ekki er víst að gangi jafn vel og okkur né heldur hvort þeir fái sömu tækifæri þar og þeir hafa fengið með okkar liði.