Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík eldri Íslandsmeistari
Mánudagur 24. september 2007 kl. 20:35

Keflavík eldri Íslandsmeistari

Lið Keflavíkur eldri í knattspyrnu karla varð Íslandsmeistari í kvöld eftir frækinn 1-0 útisigur gegn ÍR í síðustu umferð Íslandsmótsins í eldri flokki. Keflvíkingar hafa verið óstöðvandi í sumar þar sem Jakob Már Jónharðsson hefur raðað inn mörkunum.

 

Keflavík og ÍR voru á toppi deildarinnar fyrir leik kvöldsins og með sigri gat Keflavík tryggt sér titilinn. Leikurinn var hin besta skemmtun þar sem gamlir refir úr boltanum sýndu snilli sína. Sigurmark leiksins kom úr vítaspyrnu sem dæmd var gegn ÍR og úr spyrnunni skoraði Jakob Már Jónharðsson eina mark leiksins.

 

Liðsmenn Keflavíkur voru kátir í leikslok enda eini stóri knattspyrnutitillinn til þessa í ár sem fer til Keflavíkur ef frá eru taldir yngri flokkar félagsins.

 

Varnarlínan var vígaleg í kvöld. Hafsentarnir voru þeir Kristinn Guðbrandsson, aðstoðarþjálfari Landsbankadeildarliðs Keflavíkur, og Garðar Newman. Báðir annálaðir varnarjaxlar og í markinu stóð enginn annar en Ólafur Pétursson. Margeir Vilhjálmsson tók nokkrar góðar rispur á hægri kantinum og þeir Georg Birgisson og Jakob Már Jónharðsson létu ekki sitt eftir liggja. Fleiri góðar kempur komu við sögu í leiknum svo sem Ívar Guðmundsson, Ingvar Georgsson Jón Ingi Jónsson og Ólafur Þór Gylfason.

 

Einnig hafa leikið með liðinu í sumar þeir Friðrik Bergmannsson, Guðni Hafsteinsson, Gunnar Magnús Jónsson, Gunnar Oddsson, Haukur Benediktsson, Hjörtur Harðarson, Jóhann Kristinn Steinarsson, Júlíus Friðriksson, Karl Finnbogason, Kristján Freyr Geirsson, Þröstur Ástþórsson, Zoran Daníel Ljubicic, Unnar Stefán Sigurðsson, Sigmar B. Scheving, Ragnar Steinarsson og Jóhann Bjarni Magnússon.

 

Ekki amalegur sumarhópur hjá Keflavík eldri en þeim til aðstoðar á köflum á hliðarlínunni í sumar voru Guðmundur Steinarsson, Anna Pála Magnúsdóttir, Kjartan Másson og Steinbjörn Logason.

 

Keflavík eldri á því titil að verja að ári liðnu og mun þeim líkast til fara það hlutverk vel úr hendi enda verða þeir þá einu árinu eldri og reyndari.

 

VF-Myndir/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]Á efri myndinni eru sigursælir Keflvíkingar með sigurlaunin en á þeirri neðri er markahrókurinn Jakob Már Jónharðsson í stórsókn. Skýtur kannski örlítið skökku við þar sem Jakob var á sínum tíma annálaður varnarjaxl en sannar hið fornkveðna að menn verði liprari og skeinuhættari með aldrinum.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024