Keflavík eina taplausa liðið í Subway-deild karla
Keflvíkingar lentu í óvæntum vandræðum með Breiðablik á útivelli í gær en höfðu betur að lokum (106:107) og hafa unnið alla fjóra leiki sína til þessa. Grindavík fór norður á Sauðárkrók þar sem unnu sprækt lið Tindastóls, sterkur sigur á erfiðum útivelli hjá Grindvíkingum sem eru í öðru sæti deildarinnar með fjóra unna leiki og einn tapaðan.
Breiðablik - Keflavík 106:107
Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og tóku forystuna snemma. Blikar leika hraðan bolta og Keflvíkingar létu þá teyma sig inn í þeirra leik. Leikurinn var jafn og náðu Blikar að komast sex stigum yfir í seinni hálfleik. David Okeke tryggði Keflavík sigur í blálokin með því að setja niður tvö vítaskot þegar rétt tæpar tvær sekúndur voru eftir, Blikar náðu ekki að setja skot niður og Keflavík fór með sigur af hólmi.
David Okeke er sannarlega betri en enginn og var hann með 31 stig í gær, annars var engin tölfræði tekin í Smáranum í gær sem er sannarlega miður.
Tindastóll - Grindavík 77:86
22:20, 19:23, 16:27, 20:16
Grindvíkingar sýndu góðan leik í gær í Síkinu, erfiðum útivelli Tindastóls, og höfðu baráttusigur að lokum. Framan af var leikurinn stál í stál þar sem liðin skipust á forystunni en í þriðja leikhluta áttu Grindvíkingar góðan kafla og náðu þrettán stiga forskoti sem jókst í sextán stig í byrjun þess fjórða. Það reyndist banabiti Stólanna og Grindavík fagnaði góðum níu stiga sigri.
Það er greinilegur stígandi í leik Grindavíkur sem hefur unnið fjóra af fimm leikjum sínum til þessa. Naor Sharabani og Ivan Aurrecoechea Alcolado eru að ná vel saman og þá er Ólafur Ólafsson að komast í skemmtilegan ham. Nýjasti leikmaður Grindavíkur, Travis James Atson, lofar góðu en hann skellti niður tveimur þristum úr tveimur tilraunum í gær.
Frammistaða Grindvíkinga: Ivan Aurrecoechea Alcolado 25 stig/ 15 fráköst/ 2 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 16/2/4, Naor Sharabani 11/7/8, Ólafur Ólafsson 10/9/3, Kristófer Breki Gylfason 10/5/1, Travis James Atson 8/6/1, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/2/0.