Keflavík deildarmeistarar eftir tap Njarðvíkinga
Fjölnir og Njarðvík mættust í Grafarvogi í gærkvöldi í Icland Express-deild kvenna í körfubolta og var mikið í húfi fyrir bæði liðin. Njarðvík að berjast um deildarmeistaratitilinn og Fjölnir að berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Njarðvík byrjaði betur en Fjölniskonur voru þó aldrei langt undan, staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-25 fyrir Njarðvík, hjá þeim grænu voru Lele og Petrúnella að spila vel og héldu leik Njarðvíkur gangandi en hjá Fjölni voru Katina og Brittney að skila stigum á töfluna.
Í öðrum leikhluta var mjög jafnt með liðum og skiptust liðin á að skora og í hálfleik var staðan 39-43, Ólöf Helga var eina í villuvandræðum hjá Njarðvík og fékk sína 4 villu í þriðja leikhluta og hún tekin útaf og hvíld.
Þegar síga tók á þriðja leikhluta fór Fjölnisliðið í gang og tók völdin í leiknum, Jessica Bradley var Njarðvíkurstúlkum erfið viðureignar í teignum og lokaði vel á körfuna. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var Njarðvík búið að gefast upp, Fjölnir var 18 stigum yfir og allt gékk upp hjá þeim í sókn og vörn. Leikurinn endaði með sterkum sigri Fjölnis 87 – 76 og með honum gulltryggðu þær sér sæti í úrvalsdeildinni að ári.
Með þessum úrslitum er ljóst að Keflvíkingar eru deildarmeistarar en ein umferð er enn eftir óleikin.
Njarðvík: Lele Hardy 24/20 fráköst/7 stoðsendingar, Petrúnella Skúladóttir 16/6 fráköst, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 10/5 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 6/5 fráköst, Ína María Einarsdóttir 6, Sara Dögg Margeirsdóttir 6, Harpa Hallgrímsdóttir 2, Ólöf Helga Pálsdóttir 2, Eyrún Líf Sigurðardóttir 2, Erna Hákonardóttir 2.
Mynd/umfjöllun: Karl West (Karfan.is)