Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík bikarmeistari karla eftir sigur gegn Tindastóli
Jaka Brodnik var valinn maður leiksins.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 23. mars 2024 kl. 18:21

Keflavík bikarmeistari karla eftir sigur gegn Tindastóli

Keflvíkingar sneru leiknum sér í hag eftir að hafa verið fjórtán stigum undir í þriðja leikhluta

Bæði körfuknattleikslið Keflavíkur voru í bikarúrslitum KKÍ í dag og var karlaliðið fyrra til að mæta á fjalir Laugardalshallarinnar og mæti liði Tindastóls frá Sauðárkróki. Eftir jafnan fyrri hálfleik og eftir að hafa lent fjórtán stigum undir í upphafi síðari hálfleiks, snéru Keflvíkingar taflinu við í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan sigur, 79-92 og eru því VÍS-bikarmeistarar árið 2024.

Leikurinn var í járnum til að byrja með og eftir tæpar sex mínútur var staðan 15-13 fyrir Tindastól. Fyrrum leikmaður Keflavíkur, Callum Lawson var Keflvíkingum erfiður, var kominn með sjö stig og búinn að taka mikilvæg sóknarfráköst. Ef fyrsti leikhlutinn átti að gefa fyrirheit um það sem koma skyldi, máttu hjartveikir taka pillurnar sínar en staðan var 22-21 fyrir Tindastól að honum loknum. 

Jaka Brodnik var sjóðandi heitur, var kominn með 10 stig og Remy Martin með 5.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sama var uppi í tengingnum í öðrum leikhluta, liðin héldust hönd í hönd og Stólarnir með tveggja stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn, 44-42. Jaka og Remy áfram atkvæðamestir hjá Keflavík, með 16 og 11 stig.

Keflvíkingar áttu arfaslaka byrjun í seinni hálfleik, eftir tæpar þrjár mínútur voru Tindastólsmenn búnir að skora 9 stig á móti engu hjá Keflavík, staðan orðin 53-42 og Pétur, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé. Allt kom fyrir ekki, Tindastóll setti enn einn þristinn og allt einu var munurinn kominn upp í 14 stig, 56-42. Jaka Brodnik rauf loksins múrinn og setti þrist og við það virtist ætla kvikna á Keflvíkingum en skotin voru bara ekki að detta, á meðan enn einn þristurinn kom hjá Stólunum. Keflvíkingar létu samt ekki slá sig út af laginu, þeir áttu gott áhlaup og eftir þrist frá Danero Thomas tóku Tindastólsmenn leikhlé, staðan 61-52 og þriðji leikhluti rétt rúmlega hálfnaður. Stemningin snerist á sveif með Keflvíkingum og áður en varði var munurinn kominn niður í 3 stig, 63-60. Þvílíkur bikarúrslitaleikur í gangi og þarna voru Keflvíkingar algerlega búnir að taka stjórnina og allt varð brjálað Keflvíkurmegin í stúkunni þegar Remy Martin setti þrist og kláraði svo fjórðunginn með flottu gegnumbroti og staðan allt í einu orðin 67-73 fyrir Keflavík!

Engin bönd héldu Keflvíkingum í byrjun fjórða leikhlutans, sjóðandi heitir fyrir utan þriggja stiga línuna á meðan ekkert gekk hjá Stólunum, þeir tóku leikhlé þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks og staðan orðin 72-86 fyrir Keflavík. Eins og margoft hefur komið fram er körfubolti leikur áhlaupa og næstu 5 stig voru Stólanna, munurinn kominn niður fyrir hinn róma tveggja stafa múr og nóg eftir. Stólarnir fengu tækifæri á að minnka muninn meira en Keflvíkingar voru einfaldlega sterkari og lönduðum sanngjörnum sigri, 79-92.

Jaka Brodnik var valinn maður leiksins, hann var frábær allan tímann og endaði með 22 stig og 9 fráköst. Remy Martin kom ekki langt þar á eftir, skoraði 23 stig og gaf 4 stoðsendingar. Annars má kannski segja að þetta hafi verið liðssigur Keflvíkinga, þeir fengu framlag frá nánast öllum, Danero Thomas t.d. sem var með 8 stig en Keflavík gekk best á meðan hann var inni á vellinum, Keflavík var +18 á þeim tíma. 

Til hamingju Keflvíkingar!