Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík bikarmeistarar kvenna!
Laugardagur 7. febrúar 2004 kl. 15:08

Keflavík bikarmeistarar kvenna!

Keflavíkurstúlkur eru Bikarmeistarar KKÍ og Lýsingar eftir frækilegan sigur á KR, 72-69.

Í byrjun leiks gekk lítið upp hjá hvorugu liðinu og eftir 3 mínútna leik var staðan 3-0 fyrir KR. Keflvíkingar skoruðu ekki fyrr en eftir 4 mínútur sem þykir ekki frambærilegt á þeim bænum og lengi vel leit út fyrir að stúlkurnar gerðu aðra fýluferðina í Höllina í röð þar sem ekkert gekk upp hjá þeim. Í sókninni hittu þær illa úr skotum sínum og gáfu oft og tíðum óvandaðar sendingar sem rötuðu í hendur KR. Þá fóru Katie Wolfe og Hildur Sigurðardóttir oft illa með Keflavíkurvörnina.

 

Í hálfleik var staðan 27-31, KR í vil þar sem Keflvíkingar virtust alveg heillum horfnar og seinni hálfleikur bauð upp á sömu dagskrá.

Þegar 5 mínútur lifðu enn af leiknum voru KR-stúlkur komnar með 10 stiga forskot og var allt útlit fyrir að bikarinn yrði í Vesturbænum næsta árið. Þá fóru hlutirnir loks að ganga upp í sókninni hjá Keflavík og vörnin setti í lás. Smám saman saxaðist á forskotið og KR virtust ekki þola mótlætið og misstu móðinn. Samtímis fylltust Keflvíkingar sjálfstrausti og gerðu það sem til þurfti til að tryggja sér titilinn.

Hjörtur Harðarson, þjálfari bikarmeistaranna, var að vonum himinlifandi með titilinn, en var síður en svo sáttur við spilamennskuna hjá sínum stelpum í heildina litið. „Við vorum að spila illa 80% af leiknum þar sem við tókum léleg skot og vorum ekki að berjast í sóknarfráköstunum eins og KR-ingarnir. En svo undir lokin sáum við að við höfðum engu að tapa og létum vaða á þetta. Það sýnir auðvitað ákveðinn styrk að geta unnið svona stórleiki eins og þennan þrátt fyrir að spila svo illa mestan tímann, en KR voru mjög sterkar í leiknum og spiluðu vel.“

 

Svava Stefánsdóttir var fremst meðal jafningja í meistaraliðinu þar sem hún skoraði 15 stig eins og Erla Þorsteinsdóttir. Þá var Anna María Sveinsdóttir geysilega drjúg á lokasprettinum og lauk leiknum með 14 stig og 15 fráköst.

Hjá KR átti Katie Wolfe stórleik og skoraði 30 stig og Hildur Sigurðardóttir gerði 19.

 

Víkurfréttir óska Keflavíkurstúlkum til hamingju með titilinn!

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024