Keflavík áfram á sigurbraut
Efstar í Lengjudeild kvenna eftir sigur á ÍA
Keflavík mætti Skagastúlkum í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu á Nettóvellinum í kvöld. Fyrir leikinn var Keflavík í efsta sæti og ÍA í því fimmta.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og Keflavíkurstelpur byrjuðu af krafti en Skagastelpur komust þó fljótt inn í leikinn. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik þó bæði lið reyndu að sækja tókst þeim illa að skapa sér færi. ÍA fékk nokkrar hornspyrnur sem ekkert varð úr en í blálokin á fyrri hálfleik reyndi Aníta Lind Daníelsdóttir skot en boltinn barst til Marínar Rúnar Guðmundsdóttur sem þakkaði pent fyrir sig með marki og kom Keflavík yfir.
Keflvíkingar mættu ákveðnar í seinni hálfleik og snemma fékk Dröfn Einarsdóttir dauðafæri en vörn Skagastúlkna bjargaði á síðustu stundu. Á 59. mínútu gerði Gunnar Jónsson, þjálfari Kefvíkinga, breytingu á liði sína þegar hann skipti Amelíu Rún Fjeldsted inn fyrir Köru Petru Aradóttur. Amelía mætti með krafti og það tók hana ekki nema fimm mínútur að þakka fyrir sig með góðu marki (64'), hún fékk sendingu frá Paulu Watnick og með varnarmann á sér náði Amerlía góðu skoti framhjá markverðinum, 2:0. Keflavíkurstúlkur létu kné fylgja kviði og sýndu Skagastúlkum enga miskunn, rétt rúmri mínútu eftir mark Amelíu sendi Aníta Lind boltann á Natasha Anasi sem skoraði þriðja mark Keflavíkur (66'). Skagastúlkur náðu að svara á 70. mínútu ean nær komust þær ekki, heimastúlkur voru nær því að bæta við en ÍA. Lokatölur 3:1 og Keflavík er enn í efsta sæti.
Tindastóll, sem er með jafnmörg stig og Keflavík, vann einnig sinn leik í kvöld gegn Gróttu. Keflavík og Tindastóll hafa unnið alla sína leiki að undanskildu einu jafntefli sem kom þegar liðin mættust á Sauðárkróki í annari umferð. Þau eru nú komin með fimm stiga forskot á næstu lið í Lengjudeildinni og þó fullsnemmt er að segja eftir aðeins fimm umferðir þá virðast línur vera farnar að skýrast í deildinni.
Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, skellti sér á Nettóvöllinn í kvöld og með fréttinni má sjá safn mynda úr leiknum.