Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík á toppi deildarinnar
Mánudagur 1. nóvember 2010 kl. 08:51

Keflavík á toppi deildarinnar


Keflavík er í efsta sæti eftir fimm umferðir í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Þær verma efsta sætið reyndar með Hamri frá Hveragerði sem hefur jafnmörg stig. Lokaleikurinn í umferðinni var leikur Keflavíkur gegn Haukum í gær. Keflavíkurkonur unnu auðveldan 30 stiga sigur á heimavelli, 79-49.

Lið Hauka átti á brattann að sækja strax í upphafi, réði illa við sterkan varnarleik Keflvíkinga og skoruðu aðeins átta stig í fyrsta leikhluta á móti 21 stigi.
Keflavík hafði völdin á vellinum og í hálffleik var forysta þeirra 17 stig, 40-23.
Haukar náðu aldrei að ógna sigri heimastúlkna sem í lokin gátu leyft yngri og óreyndari leikmönnum að klára leikinn.

Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 18 stig fyrir Keflavík og hirti 8 fráköst. Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir skoraði 15 stig. Jacquline Adamshick setti einnig sterkan svip á leik Keflvíkinga og hirti m.a. 10 fráköst.

Mynd úr safni/ Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 18 stig fyrir Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024