Keflavík 2 - 1 ÍR - Myndir úr leiknum
Keflvíkingar stigu sigurdans í leikslok eftir góðan sigur á ÍR-ingum 97-79. Þar með leiðir Keflavík einvígið 2-1, og geta tryggt sig í úrslitin á þriðjudaginn með sigri í Seljaskóla.
Magnús Gunnarsson opnaði leikinn með þriggja stiga körfu. Keflvíkingar komu með fullum huga í leikinn. Vörnin var forsenda þess að Keflvíkingar náðu undirtökunum strax í byrjun. Í baráttuglöðu liði Keflvíkinga var einna helst eftirtektarverð framganga Sverris Þórs Sverrissonar sem henti sér í alla lausa bolta sem voru í sjáanlegum radíus frá honum. Sverrir er einn af þessum mönnum sem eiga það til að gleymast, þar sem hann skorar ekki mikið en hann er gríðarlega mikilvægur liðinu og smitar útfrá sér baráttugleði. Anthony Glover og Jón Hafsteinsson fengu báðir sína þriðju villu þegar um þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Keflvíkingar hafa hinsvegar mikla breidd og nýttist hún vel í dag þar sem lykilmenn þurftu að hvíla vegna villuvandræða. Keflvíkingar náðu 12 stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta 30-18 og var Nick Bradford öflugur undir körfunni og sallaði stigum á ÍR-ingana.
Í öðrum leikhluta héldu villuvandræði Keflvíkinga áfram þegar Nick Bradford fær sína þriðju villu í upphafi leikhlutans. Keflvíkingar spiluðu án Nick Bradford, Anthony Glover og Jóns Hafsteinssonar nánast allan leikhlutann. Það virtist ekki koma að sök því nafnarnir Gunnar Einarsson og Gunnar Stefánsson stigu upp á ögurstundu og skiluðu sínu virkilega vel. Þeir nafnar skoruðu 16 stig saman í leikhlutanum. Arnar Jónsson nýtti hraða sinn og boltatækni vel og var útsjónarsamur í leikstjórnendastöðunni. ÍR-ingar náðu þó góðum kafla þar sem þriggja stiga skot þeirra voru að detta ofaní og náðu þeir að minnka muninn niður í þrjú stig 43-40, en Gunnar Stefánsson sá til þess að Keflvíkingar leiddu með sex stigum með fimm góðum stigum í lok fyrri hálfleiks 48-42.
Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn á að breikka muninn á liðunum og komust strax í 10 stiga forystu 52-42. Nick Bradford, Anthony Glover og Jón Hafsteinsson voru aftur komnir á völlinn og voru óstöðvandi undir körfunni. Magnús Gunnarsson var að leika vel og var að finna félaga sína inn í teig. Arnar Jónsson sem fyrr var að spila eins og engill og var að hitta úr vel völdum skotum. Staðan eftir þriðja leikhluta var 69-59 og öll stemming og barátta á bandi Keflvíkinga.
Keflvíkingar eru það öflugir að erfitt er að ná af þeim 10 stiga forskoti og það var raunin í kvöld þar sem sterk vörn Keflvíkinga hélt ÍR-ingum alltaf skrefinu á eftir Keflvíkingum. ÍR-ingar gerðu þó áhlaup þegar Sveinbjörn Claesen skoraði þrjár þriggja stiga körfur á stuttum tíma en Keflvíkingar voru einfaldlega sterkari í kvöld og uppskáru sanngjarnan sigur 97-79 og var Jón Hafsteinsson virkilega öflugur í síðasta leikhluta bæði í vörn og sókn.
Stigahæstur í liði Keflvíkinga í dag var Nick Bradford með 28 stig og 8 fráköst. Anthony Glover var með 19 stig og Jón Hafsteinsson var öflugur í dag og skoraði 12 stig. Arnar Jónsson var að spila vel og setti 10 stig í dag og var með 5 stoðsendingar. Gunnar Einarsson og Gunnar Stefánsson áttu góða innkomu í öðrum leikhluta og settu sitthvor 8 stigin í leiknum.
Hjá ÍR var Grant Davis atkvæðamestur með 19 stig og 14 fráköst. Theo Dixon var með 15 stig og þeir Sveinbjörn Claesen og Ómar Sævarsson voru með 11 stig hvor. Eiríkur Önundarson var með 10 stig.
Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflvíkinga, var kátur með leik sinna manna í leikslok „Við erum búnir að vera að sýna okkar rétta andlit í síðustu tveimur leikjum. Það eru margir að stíga upp í liðinu og Gunnar Stefánsson sem hefur ekki leikið mikið í rimmunni setti 8 stig í öðrum leikhluta á mikilvægum tíma. Þegar lykilmenn lenda í villuvandræðum eigum við frábæra stráka á bekknum sem geta stigið upp, það er það sem liðsíþrótt snýst um.“ Falur sagði að lokum að Keflvíkingar ætli að útkljá einvígið í Seljaskóla á þriðjudag og að þeir leggi upp með sama leik og í síðustu tveimur leikjum.
Sparisjóðurinn í Keflavík mun bjóða Keflvíkingum og stuðningsmönnum þeirra upp á fríar sætaferðir á fjórða leik liðanna í Seljaskóla sem hefst klukkan 19:15 og fer rútan frá íþróttahúsinu við Sunnubraut klukkan 17:15.
VF-Myndir:/Þorgils