Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík 1 - 0 Snæfell - Leikurinn í máli og myndum
Föstudagur 1. apríl 2005 kl. 22:55

Keflavík 1 - 0 Snæfell - Leikurinn í máli og myndum

Keflvíkingar unnu Snæfellinga með 15 stiga mun 90-75 í fyrsta leik liðanna í úrslitum í Sláturhúsinu í kvöld. Þar með eru Keflvíkingar komnir 1-0 yfir í viðureignum liðanna og næsti leikur er á Stykkishólmi klukkan 19:15 næstkomandi mánudag.

Jafnræði ríkti með liðunum í upphafi og liðin skiptust á körfum. Mesti munur í fyrsta leikhluta var sjö stig, 9-16 fyrir Snæfell en Keflvíkingar bitu frá sér og var Anthony Glover illviðráðanlegur undir körfu Snæfellinga og heimamenn náðu að komast yfir 22-17 á kafla þar sem Keflvíkingar skoruðu 13 stig gegn einu stigi Snæfellinga. Snæfellingar réttu þó úr kúrnum og staðan eftir fyrsta leikhluta 24-22. Anthony Glover var sem fyrr segir gríðarlega öflugur og skoraði 10 stig í leikhlutanum. Snæfellingar voru að fá opin skot á þriggja stiga línunni og skoruðu 15 stig af 22 fyrir utan.

Í öðrum leikhluta var Magnús Gunnarsson funheitur og Keflvíkingar komust í 31-22 þar sem Snæfellingar réðu illa við pressuvörn Keflvíkinga. Leikurinn var mjög kaflaskiptur eftir það og liðin skiptust á að hafa forystu. Í stöðunni 35-37 fyrir Snæfell stelur Sverrir Þór Sverrisson boltanum af Snæfellsmönnum og Snæfell fær dæmt á sig ásetning. Sverrir setti bæði skot sín ofaní og jafnar leikinn og Nick Bradford kemur Keflvíkingum í 39-37 í fjögurra stiga sókn Keflvíkinga. Keflvíkingar pressuðu hátt uppi á vellinum eins og þeim einum er lagið og uppskáru mikið af hraðahlaupum og refsuðu Snæfellingum og sigu hægt og bítandi framúr Snæfellsmönnum. Dómarar leiksins flautuðu mikið í leiknum og voru leikmenn beggja liða í villuvandræðum. Keflvíkingar leiddu með sex stigum, 53-47 áður en flautað var til leikhlés. Magnús Gunnarsson var öflugur í öðrum leikhlutanum og var með 12 stig í hálfleiknum eins og Anthony Glover. Nick Bradford var með 11 stig og Jón Hafsteinsson 7. Hjá Snæfellingum var Sigurður Þorvaldsson með þrjár þriggja stiga körfur og 13 stig.

Í byrjun seinni hálfleik héldu Keflvíkingar áfram að auka forskot sitt og komust í 10 stiga mun, 64-54. Calvin Cleemons fékk sína fjórðu villu og þá opnaðist fyrir Bradford og Glover undir körfu Snæfellsmanna. Magnús Gunnarsson var við sama heygarðshornið og negldi sínum skotum niður. Snæfellingar voru þvingaðir í erfið skot gegn öflugri vörn Keflavíkur. Staðan eftir þriðja leikhluta var 68-61 og Keflvíkingar skrefinu á undan.
Magnús Gunnarsson opnaði síðasta leikhlutann með þriggja stiga körfu. Keflvíkingar náðu frábærum kafla og komust í 82-67 um miðbik fjórða leikhluta. Sókn Snæfellinga var tilviljunarkennd á meðan að gott flæði var í sóknarleik Keflvíkinga og boltinn rúllaði vel á milli manna. Snæfellingar gerðu sig ekki líklega til að vinna upp 15 stiga forskot Keflvíkinga sem unnu með 15 stiga mun 90-75. Magnús var atkvæðamikill í fjórða leikhluta og setti niður 10 stig.

Atkvæðamestur í liði Keflvíkinga í kvöld var Magnús Gunnarsson með 27 stig og 5 stolna bolta. Nick Bradford var með 21 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Anthony Glover var með 20 stig og hirti 12 fráköst. Sverrir Þór Sverrisson, sem skoraði 6 stig, og Jón Norðdal Hafsteinsson, sem skoraði 9 stig,  voru gríðarlega öflugir sem fyrr í varnarleik liðsins.

Hjá Snæfell hirti Hlynur Bæringsson 23 fráköst og var með 10 stig. Micheal Ames var með 15 stig og Sigurður Þorvaldsson 13.

Pressu vörn Keflvíkinga virðist vera andstæðingum þeirra mikil martröð og töpuðu Snæfellingar boltanum 26. sinnum í leiknum á móti 12 töpuðum boltum Keflvíkinga. Keflvíkingar voru með 17 stolna bolta gegn 7 stolnum boltum Snæfellsmanna. Þessar tölur sína glögglega hversu gríðarlega öflugur varnarleikur liðsins er og má segja að hann hafi verið grundvöllur fyrir sigri heimamanna í kvöld.

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, var ánægður í leikslok, „Það er gott mál að byrja sterkt og byrja á heimavellinum með sigri og við ætlum að halda því áfram að vinna hér, við spiluðum góðan varnarleik sérstaklega í seinni hálfleik og leikurinn var eins og við vildum þróa hann. Bæði lið hafa sína veikleika og styrkleika og það er spurning um að ná þeim fram í leikjunum og okkur tókst það í dag„ Sigurður sagði að svipaðir hlutir yrðu upp á teningnum á mánudaginn, „Það er skemmtilegt við úrslitin að leikirnir þróast oft í allskonar áttir þannig að menn verða að vera tilbúnir öllu“.

Magnús Gunnarsson átti stórleik í kvöld og skoraði 27 stig í leiknum og þar af fimm þriggja stiga körfur „Þetta var fínn leikur hjá okkur í kvöld og við gerðum það sem við lögðum upp með. Ég hitti ágætlega en ég hefði viljað hitta betur fyrir mína menn en við unnum í kvöld með 15 stigum. Svo er bara að vinna leikinn á mánudaginn.“

Tölfræði leiksins

Fleiri myndir úr leiknum í fyrramálið.

VF-Myndir/Þorgils og Bjarni

 

 


 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024