Katrín Ösp búin að skipa sig í sessi meðal þeirra bestu
Vogamærin Katrín Ösp Magnúsdóttir júdókappi hefur verið sigursæl í íþróttinni og hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari unglinga. Katrín keppti í Íslandsmótinu um helgina meðal þeirra bestu og sannaði þar að hún er búin að skipa sig í sessi meðal þeirra allra bestu í íþróttinni á Íslandi. Katrín lenti í 2. sæti í -63 kg flokki kvenna þar sem hún tapaði naumlega gegn hinni reynslumiklu Margréti Bjarnadóttur, Ármanni sem hefur verið að æfa m.a. með danska landsliðinu og var óheppin að keppa ekki úrslitaviðureign í opnum flokki kvenna við Margréti þar sem hún hefði hæglega getað unnið Gígju Guðbrandsdóttir, JR, Katrín skellti henni m.a. í golfið sem sumir vildu meina að hafi verið ippon en Katrín endaði í 3. sæti í opnum flokki kvenna. Enga að síður frábær árangur hjá Katrínu sem keppir á Norðurlandamóti 7. maí ásamt tveimur félögum sínum úr UMFÞ, þeim Sindra Snæ Helgasyni og Guðmundi Gunnarssyni sem var fjarri góðu gamni um helgina.
Þá var Grindvíkingurinn Einar Jón Sveinsson öflugur í mótinu og endaði í 3. sæti í -73 kg flokki karla og svæfði m.a. einn andstæðing sinn.
Magnús Hauksson, þjálfari Katrínar segir stúlkuna vera í fantaformi um þessar mundir og hún á bara eftir að verða betri þar sem hún er aðeins 18 ára gömul og er að keppa við stúlkur allt að 10 árum eldri en hún. Það verður því gaman að fylgjast með júdóköppum frá Suðurnesjum á Norðurlandamótinu 7. maí næstkomandi.
Vf-mynd/úr safni