Katla tvíbætti Norðurlandametið
Katla Björk Ketilsdóttir tvíbætti Norðurlandametið í snörun í -58 kg flokki um síðastliðna helgi. Metið setti Katla á jólamóti Lyftingasambands Íslands og þar sem hún lyfti fyrst 74 kg og svo 75 kg. Katla segir í samtali við Víkurfréttir að þetta hafi verið markmið hennar frá byrjun þessa árs.
Sextíu keppendur voru á mótinu en Katla, sem er einungis sextán ára gömul, hefur verið að gera það gott í lyftingum á árinu og hefur meðal annars sett Íslandsmet Norðurlandamet.
Aðspurð hvernig Katla hafi undirbúið sig fyrir mótið er hún fljót að svara og segist vera með geðveikt teymi á bak við sig. „Æfingafélagar mínir, Mikki, Andri og Gummi styðja við bakið á mér í öllu sem ég geri og svo er ég líka með frábæran þjálfara, Inga Gunnar.“