Katla skoraði flautukörfu frá miðju
Katla Rún Garðarsdóttir leikmaður Keflavíkur átti körfu kvöldsins en hún skoraði flautukörfu frá miðju í lok fyrsta leikhluta viðureignar Keflavíkur og Hauka í TM höllinni í kvöld. Leikurinn endaði með öruggum 73-52 sigri Keflvíkinga. Öll þrjú Suðurnesjaliðin spiluðu í kvöld er þriðja umferð Dominos deildar kvenna fór fram. Njarðvík fékk Stjörnuna í heimsókn í Ljónagryfjuna og sigraði 86-78 og Grindavík tapaði í Borgarnesi gegn Skallagrími 80-72.
TM höllin
Keflvíkingar leiddu allan leikinn, nýttu skot sín betur en Haukarnir og spiluðu góða liðsvörn. Keflvíkingar spiluðu á mörgum leikmönnum og komu nánast jafn mörg stig frá bekknum og frá byrjunarliðinu, eða 35 á móti 38. Sterkastar hjá Keflavík var Emelía Ósk Gunnarsdóttir með 17 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar, Dominique Hudson með 15 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta og Birna Valgerður Benónýsdóttir en hún kom inn af bekknum og skilaði 13 stigum og 7 fráköstum. Hjá Haukum var Michelle Mitchell stigahæst með 21 stig og 11 fráköst. Rósa Björk Pétursdóttir var með 13 stig og 7 fráköst.
Ljónagryfjan
Jafnt var með liðunum eftir fyrsta leikhlutann. Liðin skiptust 11 sinnum á forystu í gegnum leikinn og voru nokkuð jöfn í tölfræðiþáttum. 5 stig skildu liðin að þegar flautað var til hálfleiks, 39-34 en lokatölur voru 86-78 Njarðvík í vil. Carmen Tyson-Thomas átti svakalegan leik, fékk 49 framlagsstig og var nálægt því að landa fjórfaldri tvennu. Hún skoraði 37 stig, tók 10 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og stal 7 boltum en hún fiskaði auk þess 13 villur hjá andstæðingnum. Gríðarlega sterkur leikmaður þarna á ferðinni en hún lék áður með liði grannanna í Keflavík. Heiða Björg Valdimarsdóttir skoraði 18 stig og gaf 3 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Danielle Rodriguez stigahæst með 20 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.
Fjósið, Borgarnesi
Skallagrímur leiddi mestan partinn en staðan í hálfleik var 41-37. Aldrei var þó mikill munur og börðust bæði lið vel. Grindvíkingar hittu ekki vel utan af velli en aðeins 3 skot rötuðu ofan í af 19 tilraunum fyrir utan þriggja stiga línuna. Auk þess töpuðu þær tvöfalt fleiri boltum en Skallagrímur og hefur það eflaust haft eitthavð að segja um úrslit leiksins. Stigahæst Grindvíkinga var Petrúnella Skúladóttir með 21 stig og 4 fráköst. Næst kom Ashley Grimes með 17 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Tveir byrjunarliðsmenn Grindavíkur léku ekki vegna meiðsla, þær Ingibjörg Jakobsdóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir og er það mikil blóðtaka fyrir Grindavík en Ingibjörg er rifbeinsbrotin og Ingunn úlnliðsbrotin.