Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Karlar - Hvernig koma Suðurnesjaliðin undan sumri?
Grindvíkingar hafa hampað þeim stóra síðastliðin tvö ár.
Laugardagur 12. október 2013 kl. 10:22

Karlar - Hvernig koma Suðurnesjaliðin undan sumri?

Dominos-deild karla

Three-peat hjá Grindavík?

Grindvíkingar hafa þegar sent einn Bandaríkjamann upp í flugstöð. Undanfarin ár hafa Grindvíkingar verið gríðarlega klókir/heppnir þegar komið hefur að erlendum leikmönnum. Ef það sama verður uppi á teningnum núna þá verða Grindvíkingar að teljast líklegir til þess að berjast um þriðja Íslandsmeistaratitilinn í röð. Jóhann Árni Ólafsson er nú kominn á besta aldur og reynir á kauða í vetur. Er hann tilbúinn til þess að leiða liðið ásamt Þorleifi? Munum við sjá Ólaf Ólafsson í gamla forminu? Grindvíkingar eru spurningarmerki en ekki má vanmeta meistarana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurður Gunnar Þorsteinsson virðist oft gleymast þegar rætt er um Grindvíkinga en þar er á ferðinni einn besti stóri maður landsins sem ætti að njóta sín í deild með aðeins einn erlendan leikmann í liði. Hann virðist í góðum gír og vert verður að fylgjast með honum í vetur. Bakverðir Grindvíkinga eru ungir og efnilegir. Það er aldrei að vita nema Jón Axel Guðmundsson taki nettan „Elvar Friðriks“ á þetta og slái í gegn en pilturinn hefur allt til brunns að bera.

Mikilvægasti leikmaður: Sigurður Gunnar Þorsteinsson

Komnir:
Ármann Vilbergsson                     Sindri
Daníel Guðni Guðmundsson        Svíþjóð
Kendall Timmons                         USA
Egill Birgisson                              Reynir S.
   
Farnir:   
Sammy Zeglinski                          Austurríki
Aaron Broussard                           Frakkland
Ryan Pettinella                              Ítalía
Davíð Ingi Bustion                        Fjölnir


 

Andy er litríkur þjálfari sem hefur komið með nýjar áherslur í Keflavík.

Hvað breytist með komu Andy Johnston?

Að halda nánast sama hóp og bæta við sig Guðmundi Jónssyni, Arnari Frey og Þresti Leó ætti að segja sitt um styrkleika Keflvíkinga á komandi tímabili. Djammkóngurinn Óli Geir er líka mættur og ekki ætti það að skemma upp á stemninguna að gera. En að öllu gamni slepptu þá ættu Keflvíkingar að berjast um alla titla sem í boði eru. Liðið er vel mannað í flestum stöðum, þá sérstaklega bakvarðarstöðunum. Spennandi verður að sjá hvað nýi bandaríski þjálfarinn gerir. Hann virðist koma með ferska vinda til Keflavíkur og því má eiga von á breyttum áherslum í Sláturhúsinu. Sérstaklega verður forvitnilegt að fygjast með Magnúsi Gunnarssyni sem jafnan hefur fengið skotleyfi hjá Sigurði Ingimundarsyni. Andy Johnston spilar agaðan bolta og spennandi verður að fylgjast með því hvernig Magnús aðlagast.

Bæði Michael Craion og Darrell Lewis eru þekktar stærðir í deildinni og það er alltaf gott að halda erlendum leikmönnum frá árinu áður. Þeir þekkja til í Keflavík og vita að þar er gerð krafa um að vinna titla. Það sem gæti háð Keflvíkingum er að liðið er fremur lágvaxið. Ef Michael Craion missir af leikjum þá er vöntun á stórum strák sem getur skilað á báðum endum vallarins.

Mikilvægasti leikmaður: Michael Craion.


Komnir:
Guðmundur Jónsson           Þór Þ.
Þröstur Leó Jóhannsson      Tindastóll
Gunnar Ólason                    Fjölnir
Ólafur Geir Jónsson            Reynir S.
Arnar Freyr Jónsson            Danmörk

Farnir:   
Billy Baptist                        Annað
Sigurður Guðmundsson      Breiðablik
Andri Þór Skúlason             Fjölnir
Snorri Hrafnkelsson            Njarðvík


Logi er kominn heim. Hvaða fara Njarðvíkingar langt með hann innanborðs?

Ekkert húnahjal lengur

Njarðvíkingar hafa gert vel á leikmannamarkaðnum líkt og grannar þeirra í Keflavík. Logi Gunnarsson ákvað að hlusta á hjartað og halda sig heima í vetur. Nú er það svo að Elvar Friðriksson er þekkt stærð í deildinni og mun hann skila sínu í sóknarleik liðsins. Það er svo spurning hvað Logi gerir en hann og Nigel Moore verða að halda stöðugleika í vörn og sókn svo liðið eigi möguleika á að vera í allra fremstu röð.
Eins hafa Njarðvíkingar bætt við sig hæð með tilkomu þeirra Halldórs, Snorra og Egils. Hæð er þó ekki merki um gæði í teignum en allir þessir leikmenn eru ekki ýkja hættulegir þegar kemur að sóknarleiknum. Ólíklegt verður að teljast að Njarðvíkingar teikni upp kerfi þar sem treyst er á stóru strákana til þess að skora. Þeir verða þó að skila sínu ætli Njarðvíkingar sér alla leið. Friðrik Stefánsson er enn til staðar en það er spurning hvað Heimakletturinn á mikið eftir á tanknum. Njarðvíkingar virðast bjartsýnir fyrir tímabilið enda ríkir full ástæða til. Þeir eru með gott lið sem hungrar í árangur eftir of mörg mögur ár í Njarðvík.

Mikilvægasti leikmaður: Elvar Friðriksson.

Komnir:
Ragnar Helgi Friðriksson        Yngri flokkar
Halldór Örn Halldórsson         Þór Akureyri
Snorri Hrafnkelsson                Keflavík
Egill Jónasson                         Byrjaður aftur
Logi Gunnarsson                    Frakkland
   
Farnir:   
Oddur Birnir Pétursson           Valur   
Kristján Rúnar Sigurðsson      Hættur
Marcus Van                             Frakkland