Karfan: Njarðvík vann Hauka í mikilvægum leik
Njarðvíkingar unnu í kvöld góðan sigur á Haukum í mikilvægum leik í Intersport-deildinni. Lokatölur voru 79-70 Njarðvíkingum í vil, en leikurinn var á þeirra heimavelli.
Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum og því víst að sigurliðið myndi komast í fjórða sætið sem gefur heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem nálgast nú óðfluga.
Njarðvíkingar byrjuðu betur og voru 12 stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta, en eftir það var sem sóknarleikur þeirra ætlaði enn einu sinni að koma þeim í koll því allar aðgerðir þeirra á þeim endanum virtust stirðbusalegar eftir virkilega góða byrjun. Haukar gengu á lagið og höfðu minnkað muninn í hálfleik þar sem staðan var 37-31. Í þriðja leikhluta héldu vandræði Njarðvíkinga í sóknarleiknum áfram og Haukar náðu yfirhöndinni og leiddu með 8 stigum á tímabili.
Undir lok fjórðungsins var eins og heimamenn hrykkju í gang og Brandon Woudstra fór að skora eins og berserkur og fór hreinlega hamförum það sem eftir lifði leiks og virðist loks vera að ná sér á strik eftir að hafa verið í lægð síðustu vikur. Njarðvíkingar gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi strax í fyrstu sókn fjórða leikhluta þegar Friðrik Stefánsson fór eins og jarðýta í gegnum vörn Hauka og tróð yfir Predrag Bojovic með þvílíkum látum að lengi verður í minnum haft. Hann sótti einnig villu í leiðinni og hitti úr vítaskotinu. Eftir það náðu Njarðvíkingar sífellt betri og betri tökum á leiknum og kláruðu leikinn með 9 stiga mun eins og áður sagði og sitja í þriðja sætinu, en Keflvíkingar eiga tvo leiki til góða, gegn Grindavík á morgun og KFÍ hinn daginn, og geta með sigrum þar komist upp fyrir Njarðvík á ný.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari sigurvegaranna, var mjög glaður með að hafa sótt stigin tvö í þessum mikilvæga leik og setur stefnuna á þriðja sæti deildarinnar. „Þetta var sannkallaður fjögurra stiga leikur, en segja má að allir leikirnir sem eftir eru séu mikilvægir, en það er bara fínt að fá smá áskorun fyrir úrslitakeppnina. Annars var ég mjög sáttur við vörnina hjá okkur í kvöld sem var mjög góð allan tímann. Sóknin var stirð á kafla, en Brandon kom sterkur inn undir lokin og við tryggðum okkur sigurinn.“
Stigahæstir:
Nja: Brandon 34, Friðrik 16/11, Brenton 16.
Hau: Sævar Haraldsson 17, Whitney Robinson 13.
VF-Mynd: Þorgils Jónsson