Karfan: Keflavík vann Grindavík í baráttuleik
Keflvíkingar unnu góðan sigur á grönnum sínum Grindvíkingum í Intersport-deildinni í kvöld. Lokatölur í íþróttahúsinu við Sunnubraut voru 94-90, heimamönnum í vil, eftir jafnan og spennandi leik sem einkenndist af mikilli baráttu.
Leikurinn var í járnum allt frá byrjun og leiddu Keflvíkingar 21-20 eftir fyrsta leikhluta. Í framhaldinu fóru sóknir heimamanna að ganga brösuglega og nýttu gestirnir sér það til að komast yfir og höfðu þeir mest 4 stiga forskot, 39-43, rétt fyrir hálfleik, en Keflvíkingar náðu að laga stöðuna og í leikhléi var munurinn 2 stig, 43-45, Grindvíkingum í vil.
Seinni hálfleikur hófst á því að Gunnar Einarsson kom Keflvíkingum yfir á ný með 3ja stiga körfu. Skömmu síðar smellti Nick Bradford niður tveimur 3ja stiga skotum í röð og Gunnar bætti enn einni í púkkið. Á þessum kafla settu Keflvíkingar allt í lás í vörninni og refsuðu Grindvíkingum óspart. Bradford og Allen sópuðu upp fráköstum, sérstaklega í vörninni og sóknin fylgdi með. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 61-49 og allt útlit var fyrir að heimasigur yrði staðreynd. Grindvíkingar hafa þó verið þekktir fyrir allt annað en uppgjöf og náðu að rétta úr kútnum. Spennan var mikil bæði á pöllunum sem á vellinum og sauð næstum uppúr þegar Derrick Allen og Pétri Guðmundssyni lenti saman undir lok leikhlutans og varð að ganga á milli manna til að koma í veg fyrir að ástandið versnaði. Hlutirnir róuðust þó að lokum og Grindvíkingar áttu síðasta orðið fyrir lokafjórðunginn þegar þeir minnkuðu muninn niður í 7 stig, 67-60, eftir að hafa bætt vel í á síðustu mínútunum.
Grindvíkingar komu geysilega ákveðnir til leiks í síðasta leikhluta og tóku öll völd á vellinum og fóru að taka mikið af sóknarfráköstum. Árangurinn lét ekki á sér standa þar sem munurinn minnkaði stöðugt og loks náðu Grindvíkingar forystunni, 71-72, þegar 6 mínútur lifðu enn af leiknum. Liðin skiptust enn á að leiða leikinn þar til Keflvíkingar duttu aftur í gang í vörninni og fóru að hirða varnarfráköst á ný. Í kjölfarið tóku þeir stjórnina og komust enn yfir, 84-79. Jackie Roberts svaraði með þriggja stiga sókn, körfu og vítakasti, en stuttu síðar fór Darrel Lewis af leikvelli með 5 villur.
Síðasta mínútan var æsispennandi þar sem Grindvíkingar neituðu að gefast upp og hitti Páll Axel Vilbergsson úr svakalegu 3ja stiga skoti sem minnkaði muninn niður í 3 stig, 88-85, þegar 25 sekúndur voru eftir. Sverrir þór Sverrisson tók þá til sinna ráða og komst á vítalínuna og skoraði úr báðum skotum sínum og stal boltanum strax aftur og fékk í kjölfarið önnur tvö vítaskot þar sem hann nýtti eitt og breytti stöðunni í 91-85. Grindvíkingar létu þetta þó ekki slá sig útaf laginu og skoraði Steinar Arason magnaða 3ja stiga körfu þegar rúmar 7 sekúndur voru eftir. Sverrir Þór fór strax á línuna þar sem hann hitti úr öðru víti sínu og stal boltanum á ný og leiktíminn rann út.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga, sá ýmislegt jákvætt í leik sinna manna þrátt fyrir tapið og sér fram á betra gengi á næstunni. „Það mætti kenna einbeitingarleysi um það að við töpum niður forystunni í 4. leikhluta og lendum í eltingaleik við Keflvíkingana, en ég er ánægður með margt í okkar leik og er sannfærður um að við eigum eftir að bæta við okkur í komandi leikjum. Roberts er að koma til hjá okkur og er mjög sterkur undir körfunni, en er bara ekki í nógu góðri leikæfingu svo ég þarf að taka hann oft útaf, en ég er viss um að hann á eftir að nýtast okkur vel“
Guðjón Skúlason hjá Keflavík var ánægður með góðan sigur en sagði þó að þeir mættu bæta sóknarleikinn. „Vörnin var sterk hjá okkur, sérstaklega í seinni hálfleik, en taktískir feilar í sókninni hjá okkur í sókninni urðu til þess að við misstum niður forskotið og það verðum við bara að pússa til. Þetta var smá stress undir lokin, en þetta er rosalega sterkur heimavöllur hjá okkur og það sækir enginn sigur hingað?“
Í kvöld lék Fannar Ólafsson sinn fyrsta leik með Keflvíkingum í dágóðan tíma, en hann hefur verið frá vegna meiðsla í rúman mánuð. Hann átti góða innkomu en á að sjálfsögðu nokkuð í land með að ná fullu leikformi.
Að leik loknum munar enn 6 stigum á liðunum, en Keflvíkingar eiga leik til góða gegn KFÍ strax á morgun og ef þeir sigra þar eru þeir farnir að velgja Grindvíkingum verulega undir uggum í öðru sæti deildarinnar, en Snæfellingar eru einir á toppnum eftir sigur gegn Breiðabliki í kvöld.
VF-mynd/Þorgils Jónsson: Jackie Robertson og Derrick Allen í kröppum dansi