Karfan: Keflavík mætir Fsu í kvöld
Keflvíkingar taka á móti Fsu í IcelandExpress-deildinni í körfuknattleik í Toyotahöllinni í Keflavík í kvöld kl. 19:15. Keflvíkingar, sem léku án þriggja lykilmanna í Hólminum á mánudag, vonast til að hafa endurheimt a.m.k. tvo þeirra fyrir kvöldið.
„ Ég á von á því að Gunnar og Jón Norðdal komi aftur inn í liðið fyrir næsta leik ,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir.
Aðspurður um hvort deildin hafi farið af stað eins og hann átti von á, sagði Sigurður: „Já, alveg eins. Þetta hefur reyndar verið nokkuð sérstakur tími. Mótið er bara rétt að byrja og það á mikið eftir að gerast. Grindavík og KR hafa byrjað best og það kemur mér ekki á óvart. Þessi tvö lið hafa verið með nánast sama mannskapinn frá því á undirbúningstímabilinu í haust. Á meðan önnur lið hafa farið í gegnum miklar breytingar eftir að þau sögðu upp samningum við erlendu leikmennina. Það tekur alltaf tíma að slípa saman nýtt lið. Ég held að sum þessara liða sem hafa byrjað illa komi til með að rétta úr kútnum og öfugt,“ sagði Sigurður.
Hann sagðist ekki hafa neinar áhyggjur þó svo að Keflvíkingar hafi ekki byrjað deildina vel. „Við verðum með þennan sama mannskap í vetur og ætlum okkur að vera í toppbaráttunni, það er ekki nokkur spurning,“ sagði þjálfari Keflvíkinga.