Karfan: Grindavík vinnur í karlaflokki, Keflavíkurstúlkur vinna stórt
Í kvöld fóru fram tveir leikir. Í Intersport-deildinni tóku Grindvíkingar á móti botnliði Þórs frá Þorlákshöfn og unnu sigur án þess að eiga nokkurn stórleik, og í 1. deild kvenna rúlluðu Keflvíkingar botnliði ÍR upp.
GRINDAVÍK-ÞÓR 88-81
Grindvíkingar unnu sannfærandi heimasigur á baráttuglöðum Þórsurum, en varla er hægt að segja að þeir hafi farið á kostum. Heimamenn byrjuðu mjög vel og náðu þægilegri stöðu í upphafi leiks, en svo var eins og þeir misstu dampinn og Þórsarar náðu að saxa á forskotið þannig að í hálfleik var staðan 39-35 fyrir Grindvíkinga. Þeir byrjuðu seinni hálfleik eins og sá fyrri hafði hafist og juku muninn, en féllu aftur í sömu gryfjuna og gerðu ekki mikið meira en að halda fengnum hlut. Jackie Rogers, nýi Bandaríkjamaðurinn hjá Grindavík, átti ágætis innkomu, en hann hefur verið sárlasinn frá því hann kom til landsins, en er allur að koma til og skilaði sínu á þeim stutta tíma sem hann var á vellinum.
Friðrik Ingi, þjálfari Grindvíkinga, játaði fyllilega að hans menn hefðu ekki átt stjörnuleik, en var ánægður með sigurinn engu að síður. „Við getum spilað miklu betur en við sýndum í kvöld. Þetta var mun verra en í síðasta leik gegn KR, en Þórsarar voru virkilega duglegir í kvöld og gáfust aldrei upp.“
Stigahæstir:
Gri: Páll Axel 26, Darrel Lewis 25/14, Jackie Rogers 15/11.
Þór: Brisport 24/15, Hodgson 23/10, Brown 20.
ÍR-KEFLAVÍK 36-91
ÍR missti á dögunum bandaríska leikmann sinn sem var kjölfestan í leik þeirra. Eftir það hafa þær átt litla möguleika í leikjum sínum og voru eins og lömb leidd til slátrunar í kvöld þar sem Keflvíkingar tóku þær í kennslustund í körfuknattleik.
Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 6-25 og munurinn jókst stig af stigi þar sem eftir var. Undir lokin var munurinn 55 stig, sem segir meira en mörg orð um gang leiksins.
Stigahæstar:
Kef: Erla Þorsteinsd. 15/18, Anna María 13/10, Birna 13.
ÍR: Kristrún Sigurjónsdóttir 11/11.