Karfan: Grindavík vann Hamar
Grindvíkingar héldu sér inni í baráttunni um deildarmeistaratitil Intersport-deildarinnar með góðum heimasigri á Hamri í kvöld, 106-97.
Gestirnir byrjuðu betur og voru yfir framan af fyrsta leikhluta, en þá náðu Grindvíkingar undirtökunum og leiddu það sem eftir var leiks. Munurinn varð þó aldrei afgerandi, t.d. bara þrjú stig í hálfleik, en sigur heimamanna var aldrei í verulegri hættu, þökk sé góðri frammistöðu lykilmanna eins og Darrel Lewis, Páls Axels Vilbergssonar og Jackie Rogers sem er alltaf að finna sig betur í Grindavíkurliðinu eftir að hann hóf að spila með þeim fyrr í mánuðinum.
Friðrik Ingi Rúnarsson var að sjálfsögðu ánægður með sigurinn, en fannst sem hans menn hefðu getað gert út um leikinn fyrr. „Við vorum með þægilega forystu lengst af, en vorum full kærulausir á köflum og hleyptum þeim of oft inn í leikinn. Við áttum að vera búnir að klára þetta fyrr.“
Stigahæstir:
Grindavík: Lewis 27, Rogers 25, Páll Axel 21, Steinar Arason 14.
Hamar: Lárus Jónsson 20/8/12, Marvin Valdemarsson 19, Faheem Nelson 16/12, Chris Dade 15, Adrian Owens 13/11.
Hér má finna tölfræði leiksins