Karfan: Fannar Ólafsson aftur í Keflavík
Fannar Ólafsson, landsliðsmiðherji í körfuknattleik hefur tilkynnt félagaskipti sín úr Hamri til Keflavíkur, þar sem hann lék áður. Undanfarin ár hefur Fannar leikið með bandaríska háskólanum IUP.
Hrannar Hólm, formaður körfuknattleiksdeildarinnar, sagði í samtali við Víkurfréttir að verkfall væri yfirvofandi í skólanum og gæti það kostað Fannar skólastyrk hans og svo gæti farið að hann þyrfti að koma heim eftir áramót. „Persónulega finnst mér ólíklegt að ekki takist að leysa þessi verkfallsmál. Ég trúi því bara ekki að fólk láti loka heilum háskóla í einhverju svona. Við gerum alla veganna ekki ráð fyrir að fá hann fyrr en í vor, en vissulega væri það mikill styrkur fyrir Keflavík að fá Fannar í sínar raðir.“
Fannar lék síðast með Keflvíkingum í úrslitakeppninni 2001 þegar hann kom heim í frí og lék í 8-liða úrslitunum og undanúrslitunum. Fannar hefur staðið sig vel með liði IUP í vetur. Hann átti til dæmis góðan leik með liði sínu IUP-háskólanum um síðustu helgi þar sem hann skoraði mest í sínu liði, 16 stig, og tók auk þess flest fráköst, eða 12 talsins. IUP hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu og unnið fimm, og hefur Fannar skorað um 10 stig að jafnaði í hverjum leik og er frákastahæstur liðsins með 8.3 að meðaltali í leik.