Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Karen Guðnadóttir tvöfaldur Íslandsmeistari stúlkna í golfi - „Frábært sumar“ segir meistarinn
Föstudagur 6. ágúst 2010 kl. 09:06

Karen Guðnadóttir tvöfaldur Íslandsmeistari stúlkna í golfi - „Frábært sumar“ segir meistarinn

Karen Guðnadóttir varð Íslandsmeistari í holukeppni í stúlknaflokki í golfi en mótið fór fram á Hólmsvelli í Leiru og lauk í síðdegis í gær. Karen varð Íslandsmeistari í höggleik í sama flokki þegar mótið fór fram í Eyjum um miðjan júlí. Karen hefur því unnið tvöfalt á einum mánuði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er skemmtilegt að vera búin að vinna tvo stærstu titlana. Það var á brattann að sækja hjá mér í úrslitaviðureigninni en ég náði forystu á 14. braut og lét hana ekki eftir það. Var með tveggja holna forskot þegar tvær voru eftir og vann svo 17. brautina og vann því 3:1,“ sagði Karen sem hefur auk þessara tveggja stærstu titla vann eitt stigamót á Arion bankamótaröð unglinga í sumar að ógleymdum klúbbmeistaratitli Golfklúbbs Suðurnesja í byrjun júlí. Frá lok júní til byrjun ágúst hefur hún innbyrt fjóra af stærstu titlum sem hún gat unnið. Sannarlega frábær árangur hjá Keflavíkurmærinni. Eldri systir hennar, Heiða, er líka snjall kylfingur og hefur orðið stúlknameistari og klúbbmeistari GS.

„Þetta er búið að vera frábært sumar, draumi líkast. Ég æfi vel og hef gert lengi og það er að skila sér. Ég hef líka keppt mikið og fengið reynslu sem skilaði sér vel í dag í lokahringnum,“ sagði Karen. Hún vann Hildi Kristínu Þorvarðardóttur í úrslitaleiknum, en hún er dóttir Ragnhildar Sigurðardóttur, margfalds Íslandsmeistara kvenna í golfi.

Á efri myndinni er Karen með Íslandsmeistarabikarinn og á þeirri neðri er hún að slá upphafshögg á 16. teig í Leirunni í lokahringnum.