Karaktersigur Keflvíkinga á Blikum
-Guðmundur skoraði í áttunda leiknum í röð.
Keflvíkingar sigruðu Breiðablik í 20. umferð Landsbankadeildarinnar í knattspyrnu í Keflavík síðdegis með þremur mörkumegn einu. Sigur heimamanna var sannfærandi þó svo að þeir hafi lent einu marki undir í lok fyrri hálfleiks og eru áfram í toppsæti deildarinnar og 46 stig.
Keflvíkingar byrjuðu fyrri hálfleikinn með látum og áttu mörg skot að marki Blika undan sterkum vindinum en án árangurs og undir lok hans komu Blikar með nokkrar góðar sóknir og upp úr einni þeirri skoruðu gestirnir á markamínútunni frægu, 43. og var þar að verki Jóhann Berg Guðmundsson. Nokkuð gegn gangi leiksins í heild en þó voru Blikar sprækir síðasta stundarfjórðunginn.
Það voru aðeins liðnar þrjár mínútur af seinni hálfleik þegar Patrick Redo skoraði jöfnunarmark Keflavíkur eftir sendingu frá markaskoraranum Guðmundi Steinarssyni. Heimamenn tóku öll völd á vellinum og sýndu Blikum hverjir væru toppliðið í deildinni. Hvað eftir annað sundurspiluðu Keflvíkingar Blikana, héldu boltanum þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður og bjuggu til með hraða, gríðarlegri baráttu og útsjónarsemi fullt af góðum marktækifærum.
Eftir frekar árangurslítinn fyrri hálfleik var topplið deildarinnar komið í ham og nú var ekki aftur snúið. Á 52. mínútu hitti Guðmundur Steinarsson ekki boltann í upplögðu færi en sóknir Keflvíkinga héldu áfram og á 62. mínútu bætti Guðmundur fyrir þau mistök og skoraði skemtilegt mark, nokkuð óvænt því hann var með boltann ekki langt frá endamörkum, um 10 metra frá nærstönginni og flestir áttu von á því að hann gæfi boltann út í teiginn en í staðinn skaut hann á markið og boltinn fór yfir marklínuna alveg við nærstöngina, frábært mark.
Gestirnir voru greinilega slegnir út af laginu og heimamenn héldu áfram að sækja. Á 81. mínútu gaf Símun Samuelsen fyrir markið og þar kom Patrick Redo og skoraði örugglega. Staðan orðin 3:1 og sigurinn í höfn.
Blikar áttu ekki roð í heimamenn í seinni hálfleik og Ólafur Kristjánsson, þjálfari þeirra var ekki ánægður með hvað þeir voru slakir í byrjun seinni hálfleiks eftir að hafa náð forystu í fyrri hálfleik, gegn gangi leiksins.
Ómar Jóhannsson, markvörður Keflavíkur var sæll og glaður í leikslok og sagð að menn hefðu verið ákveðnir að bæta um betur strax á fyrstu mínútum seinni hálfleiks. „Það er gríðarlega góður andi í hópnum og við stefnum allir sem einn að einu takmarki“, sagði markvörður Keflavíkur sem stóð sig mjög vel í leiknum.
Aðstæður voru mjög erfiðar á Sparisjóðsvellinum í kvöld en hann var mjög blautur og þungur og þá var veður ekki gott, talverður vindur og rigning síðasta korterið. Allir leikmenn Keflavíkur stóðu sig vel og er erfitt að taka einhverja leikmenn út. Gaman þó að sjá Redo virðist vera að finna skotskóna en hann hefur verið mjög hættulegur í undanförnum leikjum en þó ekki náð að skora mikið. Aðrir sóknarmenn hafa verið heppnari við að finna rammann og Guðmundur Steinarsson átti enn einn góðan leikinn. Sama má segja um leikmenn á borð við Hólmar Örn Rúnarsson en hann er gríðarlega öflugur á miðjunni.
„Liðið sýndi mikinn karakter með góðri frammistöðu. Það var full mikið kapp í okkur í fyrri hálfleik og við vorum ekki nógu yfirvegaðir í skotunum á markið. Liðið lék síðan mjög vel í síðari hálfleik og þetta var mjög góður sigur. Mér fannst það mjög sterkt hjá okkur að vinna leikinn eftir að hafa lent undir, annan leikinn í röð en við kláruðum dæmið líka á móti Fjölni þannig. Það er karakter í því. Við vonum síðan að okkar fólk fjölmenni á leikinn gegn FH á sunnudaginn“, sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur eftir leikinn.
Myndir: Páll Ketilsson og Páll Orri Pálsson