Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kani til Grindavíkur – Damon var á leið til Keflavíkur
Fimmtudagur 15. janúar 2009 kl. 11:42

Kani til Grindavíkur – Damon var á leið til Keflavíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nokkur lið í Iceland Express deildinni í körfubolta eru að skoða möguleika á að fá bandaríska leikmenn til liðs við sig. Grindvíkingar hafa undanfarið safnað peningum til að styrkja liðið og Keflvíkingar hafa gælt við þá hugmynd að fá Damon Johnson sem er íslenskur ríkisborgari og annan útlenskan leikmann.
Grindvíkingar eru að fá Nick Bradford sem er mjög snjall leikmaður og verður hann jafnvel kominn fyrir bikarleikinn við KR. Nick lék með Keflavík fyrir þremur árum og Grindvíkingar hafa áður og það undir stjórn Friðriks Ragnarssonar rennt hýru auga til þessa snjalla leikmanns.
Damon Johnson var kominn hálfa leið til Keflavíkur en forráðamenn félagsins settu sig í samband við hann og stóð jafnvel til að hann kæmi á næstu dögum. Stjórnin fundaði oft um málið en komst loks að þeirri niðurstöðu að láta málið vera í ár. „Það er kreppa og við ætlum ekki að taka þessa fjárhagslegu áhættu núna,“ sagði Kristinn Guðmundsson, einn stjórnarmanna í Keflavík í samtali við Víkurfréttir.
Damon sem margir telja besta útlenska leikmanninn sem leikið hefur á Íslandi er íslenskur ríkisborgari og hefur leikið nokkra landsleiki með Íslandi. Hann hefur undanfarið leikið með liði í Bandaríkjunum. Damon hefur oft leikið með Keflavík og unnið marga titla með liðinu undanfarin ár.
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta töldu stjórnendur Keflavíkur að það væri hreinlega ekki nóg að fá tvo leikmenn til að eiga rauhæfa möguleika á Íslandsmeistaratitlinum í ár og því hafi verið ákveðið að slá þessa hugmynd út af borðinu. „Stelpurnar munu sjá um titilvörnina í ár. Þær eru í stuði og munu vinna titla í ár,“ sagði einn nefndarmanna Keflavíkur.
Flesti stóru liðin í Iceland Express deildinni eru ósátt við  þá ákvörðun KR að halda Bandaríkjamanninum á meðan hin létu sína menn fara. Hefði KR gert það hefði það haldið og öll stóru liðin í deildinni leikið án útlendinga og hún þannig verið jafnari. Miðað við að Grindavík sé að fá Bradford þá er það nokkuð ljóst að það verður eina liðið sem mun veita KR keppni í vetur um titla.

Damon fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Keflavík fyrir nokkrum árum. Að ofan er Nick Bradford í leik með Keflavík.