Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kanarnir koma á morgun
Miðvikudagur 16. maí 2007 kl. 12:22

Kanarnir koma á morgun

Þrír bandarískir knattspyrnumenn koma til landsins á morgun og munu þeir leika með Reynismönnum í sumar. Strákarnir koma frá North Carolina Wesleyan College en þar hafa þeir leikið með liði skólans, Battling Bishops. Jakob Jónharðsson, þjálfari Reynis, segir komu þeirra vera nauðsynlega viðbót fyrir Sandgerðinga því ekki megi mikið út af bera í 1. deildinni í ár þar sem leikirnir eru margir og tímabilið langt. Álagið á leikmannahópa allra liða mun vera töluvert í sumar og öllum nauðsynlegt að hafa góða breidd.

 

,,Strákarnir lenda á morgun og fara þá á sína fyrstu æfingu. Þetta eru þrír leikmenn, tveir miðjumenn og sóknarmaður,” sagði Jakob í samtali við Víkurfréttir. Bandaríkjamennirnir þrír eru rétt liðlega tvítugir en einn þeirra er vinstrifótarmaður, Salvador Benitez Jr. og Michael Brown. ,,Benitez er með eitraðan vinstri fót og Brown er afturliggjandi trukkur á miðjunni,” sagði Jakob en sá þriðji heitir Shawn Dixon og er framliggjandi miðjumaður.

 

Næsti leikur Reynis fer fram á föstudag þegar þeir mæta ÍBV á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Sjálfur lék Jakob með ÍBV um hríð og segist þekkja vel til liðsins en spennandi sé fyrir klúbb eins og Reyni að mæta jafn stórum klúbb á borð við ÍBV.

 

,,Þetta verður gífurlega erfiður leikur á föstudag og við förum til Eyja til að gera okkar besta og höldum þangað með því hugarfari að vinna leikinn, eða í það minnsta að ná í stig,” sagði Jakob. ,,Þetta eru spennandi tímar fyrir bæjarfélagið og leikmennina því við eigum eftir að mæta stórum klúbbum og hörkuliðum,” sagði Jakob.

 

Reynismenn bíða nú eftir leikheimild fyrir Bandaríkjamennina en ekki er útséð hvort leikheimildirnar verði komnar í gegn fyrir leikinn gegn ÍBV á föstudag.

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024