Kanar sjá ekkert annað en Ameríku
Valur Orri er enn einn Suðurnesjamaðurinn sem gerir það gott í háskólakörfunni í Bandaríkjunum
Valur Orri Valsson fæddist nánast með körfubolta í höndunum. Hann hóf feril sinn í meistaraflokki með Njarðvík aðeins fjórtán ára gamall og þekkir lítið annað en að spila körfubolta í fremstu röð. Hann stundar nú nám við Florida Institute of Technology í Bandaríkjunum þar sem hann þurfti að sitja á bekknum sitt fyrsta tímabil árið 2016. „Það var mjög líklegast það erfiðasta sem ég hef gert. En ég var alltaf að æfa sem hjálpaði auðvitað aðeins. En ég þurfti bara að hugsa aðeins lengra en það tímabil. Mig langar að mennta mig og klára þann áfanga, það dreif mig áfram,“ segir Valur en regluverk í háskólaboltanum gerði það að verkum að hann þurfti að sitja á tréverkinu fyrst um sinn.
Síðan þá hefur allt legið upp á við og hann var lykilleikmaður í liðinu á síðasta tímabili. Valur er núna meðal stigahæstu manna liðsins með tíu stig að meðaltali en hann leiðir liðið með 7,4 stoðsendingar í leik. Lífið getur verið ljúft í Flórída að sögn Vals sem nemur markaðsfræði í háskólanum. Valur segist hafa bætt leik sinn síðan hann kom til Bandaríkjanna, hann sé orðinn yfirvegaðri en áður. Þegar hann hélt af landi brott var hann að eiga sitt besta tímabil í Domino’s-deildinni með Keflvíkingum.
Stundum óbærilegt að vera utandyra
„Það besta við að búa hérna er auðvitað sama gamla góða svarið sem maður gefur alltaf, það er að sjálfsögðu veðrið. Þó það sé nú stundum óbærilegt að vera of lengi úti. Það er allir rosalega næs og kurteisir hérna líka sem ég hef gaman af. Það eru fáir gallar en ef ég ætti að nefna einn þá væri það kannski að Flórída er ekki fyrir gangandi vegfarendur, það þarf að fara allt á bíl.“
Vali gengur vel að samræma nám og körfubolta en boltanum fylgja oft talsverð ferðalög. „Stundum getur maður fengið alveg upp í kok þegar maður ert búinn að vera í skólanum og á æfingu í um sex til átta tíma á dag. En það venst rosalega vel og maður hugsar bara að þetta er það sem ég skráði mig í og það þýðir ekkert að dvelja við það.“
Hvað tekur við að námi loknu?
„Það er aldrei að vita. Ég hugsa rosalega lítið úti það eins og staðan er núna. Best að klára þetta bara eitt skref í einu, annars fer hausinn a manni alltaf á yfirsnúning.“
Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart varðandi Flórída?
„Nei, ekkert sem kom mér mikið á óvart. Flórída er bara frekar rólegur staður þar sem margt aldrað fólk frá öðrum fylkjum dvelur yfir veturinn. Svo dýrka ég hvað Kanar sjá ekkert annað en Ameríku.“
Settir þú þér markmið fyrir tímabilið?
„Ég setti mér það markmið að vera á topp fimm yfir stoðsendingahæstu menn i D2 (annari deild) í landinu. Annars er það mikilvægast fyrir mig að mæta á hverja einustu æfingu eins og ég vil mæta i leiki.“
Nú koma titlar til Reykjanesbæjar
Valur fylgist ennþá vel með gangi mála heima í efstu deildum á Íslandi. Hann bindur miklar vonir við liðin í Reykjanesbæ og spáir titlum í bæjarfélagið. „Það er eiginlega ómögulegt að segja finnst mér karla megin. Ég vona að sjálfsögðu að Keflavík vinni. Einnig vill ég sjá Njarðvík gera vel. Vona að þau skipti þessu sín á milli þar sem Kelfavík datt út úr bikarnum. Annars verður þetta KR, Njarðvík, Keflavík eða Tindastóll.“
Tvöfalt hjá stelpunum
„Kvenna meginn verður þetta Keflavík, tvöfalt. Þær hafa alltaf verið mitt lið i kvennaboltanum enda mamma grjótharður Keflvíkingur þar. Jón Guðmunds og Maggi Gunn eru svo að stjórna þessu. Er til betri blanda?
Annars fylgjast ég mjög mikið með. Reyni að horfa á alla leiki sem eru sýndir og körfuboltakvöld að sjálfsögðu,“ segir Valur Orri úr sólskinsfylkinu Flórída.
Valur Orri í eldlínunni með Keflavíkurliðinu.