Júlía Ruth skoraði í baráttusigri Grindvíkinga
Grindavík vann góðan sigur á Gróttu í gær þegar liðin áttust við í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Júlía Ruth Thasapong kom Grindavík í forystu á 23. mínútu og þar við sat.
Athygli vekur að tólf af þeim fjórtán leikmönnum sem komu við sögu hjá Grindavík í gær eru uppaldir Grindvíkingar.
Grótta - Grindavík 0:1
(Júlía Ruth Thasapong 23')
Það voru níu Grindvíkingar sem voru í byrjunarliði og alls fjórtán í hópnum. Grindvíkingarnir hafa verið óheppnar með meiðsli í sumar en Dröfn Einarsdóttir kom inn í byrjunarliðið í gær og lék sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni í ár eftir að hafa brotið bringubein rétt fyrir mót. Þá lék Katrín Lilja Ármansdóttir síðustu mínúturnar af leiknum en hún hefur verið frá vegna meiðsla frá síðasta ári.
Sigur Grindvíkinga var kærkominn en fyrir leikinn var Grindavík í þriðja neðsta sæti deildarinnar en Grótta var í því næstefsta. Grindvíkingar eru sem stendur í fimmta sæti en nokkrum leikjum er ólokið í umferðinni.
Petra Rós Ólafsdóttir hafði myndavélina meðferðis á leikinn í gær og tók meðfylgjandi myndir.