Júdókappar úr Vogum og Grindavík sigursælir á Haustmótinu
Níu keppendur frá Þrótti í Vogum tóku þátt í Haustmóti Júdósambandsins sem fór fram sl. helgi. Árangurinn var með miklum ágætum þar sem allir keppendur þeirra unnu til verðlauna.
Í flokki 11 ára vann Ásgeir örn Þórsson til gullverðlauna, en hann er Íslandsmeistari frá því í vor. Sindri Helgason vann gull og Davíð Hansen tók silfrið í léttviktarflokki 14 ára.
Kristján Már Guðmundsson og Róbert Unnarsson unnu silfur og brons í 14 ára flokki og Baldur Guðmundsson vann sinn flokk af miklu öryggi í aldri 11-12 ára. Jón Baldur Guðmundsson var í öðru sæti 15-16 ára og Þórir Helgi, sem keppti á sínu fyrsta móti, náði 3. sæti í sínum flokki.
Þá varð Katrín Ösp Magnúsdóttir í öðru sæti í opnum flokki fullorðinna eftir úrslitaglímu við Norðurlandameistarann Gígju Guðbrandsdóttur.
Þess má einnig geta að UMFG náði líka góðum árangri á mótinu.
Alexander Elvarsson og Daníel Arnarson unnu sína flokka, en Grindvíkingar tóku einnig ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.
Mynd: Katrín með silfurverðlaunin