Júdókappar úr Grindavík reglulega á verðlaunapöllum
Júdódeild gerði góða ferð á Akureyri um þarsíðustu helgi þegar fagur hópur fangbragðakappa úr Grindavík tók þátt í vormóti yngri keppenda Júdósambands Íslands
Það var Aron Snær Arnarsson, aðstoðarþjálfari deildarinnar, sem fór með hópnum sem þjálfari og fararstjóri og sagði hann júdófólkið hafa staðið sig frábærlega og verið félaginu til mikils sóma. Grindvíkingar lönduðu fernum verðlaunum á mótinu; einum gullverðlaunum og þrennum bronsverðlaunum.
Natalía Gunnarsdóttir sigraði flokk U13 og þau Tinna Ingvarsdóttir (U21), Ísar Guðjónsson (-90) og Kristinn Guðjónsson (-100) lentu í þriðja sæti í sínum flokkum.
Um síðustu helgi fór vormót eldri keppenda fram og þar átti UMFG einn keppanda en hann meiddist og þurfti því að draga sig úr keppni.
Öflugt júdóstarf í Grindavík
Hópur frá júdódeild ungmannafélags Grindavíkur tók þátt í Góumóti JR sem fram fór í lok febrúar. Önnur félög sem tóku þátt í Góumótinu voru gestgjafarnir í Júdófélagi Reykjavíkur, ÍR, Selfoss og Tindastóll. Grindvíkingar gerðu sér lítið fyrir og hömpuðu öðru sæti félaga.
Það er ljóst að öflugir bardagagarpar leynast í Grindavík og því slógu Víkurfréttir á þráðinn til Arnars Más Jónssonar sem er yfirþjálfari júdódeildar UMFG og spurðu hann hvernig staðan væri á júdó í Grindavík.
„Staðan er gríðarlega góð og ég er ánægður með hve þátttakan er góð og hvað það eru margir að koma, gamlir nemendur að koma aftur og það sem ég er rosalega ánægður með er hve margar stelpur eru að sækja í júdóið. Það sama er að gerast í Júdófélagi Reykjavíkur veit ég, mikil þátttaka og margar stelpur.“
Þessu aðsókn stelpna í júdó í Grindavík hefur orðið til þess að deildin er nú með þátttakendur á öllum aldri sem er mikil breyting frá því sem var segir Arnar Már. „Lengst af var ég bara með eina stelpu en svo missti ég hana í fótboltann, hún var orðin best á landinu.
Þó Grindavík snúist mest um fótboltann og körfuboltann þá er júdódeildin hér sú næstelsta á landinu. Það má heldur ekki gleyma því að við eigum ólympíufara, Sigurð Bergmann. Þann eina frá Grindavík sem hefur tekið þátt í Ólympíuleikum.“
Vinna flest verðlaunin í Grindavík
Eins og fyrr segir eru öflugir bardagakappar í Grindavík og keppendur frá júdódeildinni hafa staðið sig vel á þeim mótum sem þeir hafa tekið þátt í.
„Júdódeildin hefur verið að vinna til flestra verðlauna allra félaga í Grindavík, sem dæmi þá tókum við þátt í stóru móti í síðasta mánuði (Góumótinu) og lentum í öðru sæti allra liða á landinu – það er náttúrlega alveg geggjað,“ segir Arnar sem er augljóslega stoltur af nemendum sínum.
Arnar Már, sem er með 2. dan í júdó (önnur gráða svarta beltis), segist ennþá vera að læra. „Fólk þekkir aðallega til ólympísku íþróttarinnar júdó en júdó er svo miklu meira, júdó er svo andleg og það skiptir svo miklu máli. Júdó er fyrir alla, eins og ég segi þá geta allir stundað júdó – þess vegna til 99 ára.“ Hann segir einnig að þjálfunaraðferðir hans geri það að verkum að nemendur hans geta tekið þátt í æfingum hvar sem er í heiminum. „Ég kenni allt á japönsku, það er hefð fyrir því og gert víðast hvar. Með því móti geta mínir nemendur farið á æfingu hvar sem er í heiminum, þeir þurfa ekki að skilja tungumálið því þeir skilja æfinguna. Þetta er gert svona alls staðar í heiminum.“
Verðlaunastytta nefnd í höfuðið á Arnari
Arnar hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina og ekki aðeins verið þjálfari í júdó, hann þjálfaði einnig fatlaða í kraftlyftingum í meira en tvo áratugi og bjó til keppni sem er orðin alheimsíþrótt í dag. „Sterkasti fatlaði maður heims er keppni sem ég bjó til fyrir nítján árum,“ segir Arnar. „Ég var landsliðsþjálfari fatlaðra í 21 ár og á Bretlandi er ein verðlaunastytta keppninnar nefnd í höfuðið á mér, Arnar Már Trophy – það er meira að segja svona sköllóttur karl með drumb í höndunum,“ bætir hann við og hlær.