Júdóíþróttin í sókn
„Júdóíþróttin hefur átt vaxandi fylgi að fagna og við búumst við metfjölda til æfinga nú á komandi vetri. Við vorum með keppendur á öllum mótum á síðasta tímabili og einn þátttakanda á Norðurlandamótinu sem gerði góða hluti þó hann hafi ekki náð verðlaunasætt.“
Þannig svarar Magnús Hauksson, júdóþjálfari UMFÞ í Vogum þegar hann er inntur eftir því hvað sé að gerast hjá deildinni. „Júdómenn er sprækir þessa dagana. Tímabilið er að hefjast, flestir hafa æft vel í sumar og mikill hugur í mönnum að láta að sér kveða í mótum vetrarins,“ bætir hann við.
Magnús segir mikla breidd í júdó-iðkendahópi Þróttar. Þeir léttustu vegi um 35kg og sá þyngsti sé 160kg aflraunamaður. „Eins og sést á þyngdarmuninum þá erum við með karlaflokka, unglinga og fullorðna. Enda er það markmiðið að allir geti æft hjá okkur, hvort sem um er að ræða byrjendur, dútlara eða afreksfólk. Það er hlúð að öllum og allir eru með. Við bjóðum alla velkomna á æfingar til okkar í Íþróttamiðstöðina í Vogum,“ sagði Magnús.
Þess má geta að í undirbúningi er stofnun Júdódeildar hjá UMFN og hefur verið boðað til stofnfundar á morgun, miðvikudaginn 8. september. Fundurinn verður haldinn í íþróttamiðstöð Njarðvíkur kl. 16:45.
Mynd: Júdómenn í Vogum eru vígalegir og til alls vísir í mótum vetrarins.