Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Júdó í endurnýjun lífdaga
Júdóþjálfarinn Arnar Már Ólafsson aðstoðar ungan iðkanda með júdóbeltið. Mikið og öflugt starf er unnið í bardagaíþróttinni í bæði Grindavík og Vogum. VF myndir: Eyþór Sæm.
Miðvikudagur 22. mars 2017 kl. 07:00

Júdó í endurnýjun lífdaga

Öflugt starf í Grindavík og Vogum - Fólk á öllum aldri stundar japönsku bardagalistina

Mikil gróska er í starfi júdódeildanna í Grindavík og Vogum en samtals æfa þar um 70 iðkendur. Á undanförnum áratugum hefur skapast mikil hefð fyrir íþróttinni enda hafa þaðan komið öflugir júdómenn eins og Sigurður Bergmann úr Grindavík og Magnús Hauksson úr Vogum.

Nú hefur Arnar Már Jónsson tekið við keflinu og stýrir báðum þessum deildum. Arnar er í grunninn karatemaður en hann fékkst einnig við kraftlyftingar og aflraunir til fjölda ára. Hann byrjaði sjálfur að stunda júdó á fullorðinsaldri og er líklega einn af fáum svartbeltingum sem aldrei hefur háð bardaga í júdómóti. „Mig langar dálítið að keppa. Skrokkurinn er orðinn ansi slappur en kannski teipa ég mig saman og skelli mér á mót,“ segir Arnar glettinn. Hann elti syni sína í júdó í Vogunum hjá Magga Hauks á sínum tíma. Hann féll strax fyrir íþróttinni og hefði óskað þess að hann hefði nú byrjað 30 árum fyrr að æfa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég lærði af Magnúsi og er að kenna hans júdó. Hann var einn af okkar bestu mönnum á níunda áratugnum þannig að það er mikil saga hér á svæðinu,“ segir þjálfarinn.

Þrátt fyrir sterka hefð hafði dregið úr áhuga á júdóíþróttinni í Vogum og Grindavík þegar Arnar tók við starfinu fyrir fjórum árum. Hann þjálfar konur og karla allt frá tveggja ára aldri og upp úr. Sigurhefð er að myndast og framtíðin er björt í júdó í nágranna sveitafélögunum tveimur.
„Ég hristi aðeins upp í þessu. Það getur gerst að deildir sem þessar detti aðeins niður. Ég ætla að halda áfram sveittur að byggja upp,“ segir Arnar en Jóhannes Haraldsson (Jói júdó) lagði grunninn í Grindavík fyrir rúmum 40 árum og bjó til júdóhefðina á staðnum. Síðan hafa komið þaðan margir Íslandsmeistarar og ólympíufarinn Sigurður Bergmann. Það sama má segja um Magnús Hauksson í Vogum.

Upprennandi afreksfólk

En eru álíka afreksmenn að koma upp hjá félögunum núna? „Ég er 100% viss. Ég er hérna með stelpu sem var hæst á stigum yfir alla keppendur á Íslandi í fyrra. Sú heitir Tinna Hrönn Einarsdóttir og er aðeins 13 ára og hún vann alla í sínum þyngdarflokki, bæði stelpur og stráka. Það eru svo margir aðrir hér sem eru að banka á dyrnar hjá landsliðum þannig að hér er mikið að gerast.“

Tinna Hrönn byrjaði að æfa júdó eftir að bróðir hennar hafði byrjað að æfa. „Mig langar að komast á stórmót í útlöndum í framtíðinni og jafnvel á ólympíuleika,“ segir Tinna sem æfir fjórum sinnum í viku og sækir m.a. aukaæfingar í Vogum. Hún æfir einnig fótbolta þar sem hún leikur sem kantmaður. Hún veit ekki að svo stöddu hvora íþróttina hún leggur fyrir sig en hún þykir mikið efni.

Arnar er sífellt með augun opin gagnvart krökkum sem gætu verið efnileg í júdó. „Það hefur verið gert grín að því að ég megi ekki sjá krakka labba út á götu án þess að spyrja hvort hann vilji æfa júdó. Það hefur þó verið þannig. Ef einhver kemur t.d. að horfa á æfingu þá fá þeir oft að vera með í lok æfingar þegar við erum í leikjum. Eitt leiðir af öðru og fyrr en varir eru þeir komnir í júdógalla.“

Gríðarlegur uppgangur hefur verið í bardagaíþróttum á Suðurnesjum, má þar nefna árangur taekwondodeildar Keflavíkur og júdódeildar Njarðvíkur. „Það þarf að leggja gríðarlega mikið á sig og fórna miklu. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu mikil vinna liggur til dæmis að baki klukkutíma æfingu hjá börnum,“ segir Arnar en hann segir júdó sé margslungnara en margan grunar. Hann hefur mikið kynnt sér fræðin og kennir nemendum sínum söguna og hefðirnar sem fylgir júdóíþróttinni.

Stofnaði keppnina Sterkasti fatlaði maður heims

Arnar þjálfaði íþróttafélag fatlaðra í 21 ár í kraftlyftingum. Þar kviknaði sú hugmynd að stofna til keppni um sterkasta fatlaða mann heims. Þá keppni setti Arnar á laggirnar og hefur staðið fyrir henni síðustu 15 ár en hún hefur náð útbreiðslu um heim allan.
„Ég var að þjálfa fólk í stöðluðum kraftlyftingum. Það er þannig að fatlaðir einstaklingar fá yfirleitt bara að keppa í bekkpressu. Ég sá að þeim leiddist þetta rosalega þessar einhæfu æfingar. Þetta byrjaði þannig að ég leyfði nokkrum strákum sem voru að æfa hjá mér að draga gamla Skodann minn með spotta. Þá fór ég að hugsa að þeir gætu gert ansi mikið. Hugmyndafræðin er þannig komin til að fatlaðir stígi upp frá fötlun sinni og geri meira en jafnvel ófatlaðir geta gert.“ Arnar heldur utan um undankeppnir víða um heim en lokakeppnin sjálf fer fram í London í september.

Fjör á æfingu: Simon (fyrir miðju) er sex ára en hann er ekki alveg viss um hvað hann hefur æft lengi. Hann hefur gaman af því að kljást og leika á æfingum en segir júdó þó ekki vera slagsmál. „Við glímum og leikum. Ég ætla að verða rosalega góður í júdó.“

Efnileg: Tinna Hrönn var stigahæst allra keppenda á Íslandi í fyrra. Hún aðeins 13 ára og þykir eiga framtíðina fyrir sér.

Fjölhæfur: Arnar hefur komið víða við í sportinu. Hann var sigursæll í karate og kraftlyftingum áður en hann endaði í júdó þar sem þjálfun á hug hans allan. Hann þjálfaði hjá íþróttafélagi fatlaðra í tvo áratugi og kom á laggirnar keppninni um sterkasta fatlaða mann heims.