Júdó er komið til þess að vera
Júdódeild Njarðvíkur er að verða stórveldi í greininni
Júdódeild Njarðvíkur hefur átt frábæru gengi að fagna að undanförnu og vöxtur deildarinnar hefur verið gríðarlegur frá stofnun hennar árið 2010. Víkurfréttir tóku hús á Guðmundi Stefáni Gunnarssyni þjálfara og efnilega fólkinu hans sem hefur sópað að sér verðlaunum undanfarin ár. Margir setja markið hátt og stefna á atvinnumennsku í blönduðum bardagalistum en flestir eru mættir til þess að rækta sjálfan sig og njóta félagskaparins.
Gaman að kljást við stóru gaurana
Garðbúinn Ægir Már Baldvinsson varð á dögunum Evrópumeistari í bakchold. Hann hefur verið að æfa júdó í rúm fimm ár en hann æfir auk þess jui jitsu, backhold, glímu og blandaðar bardagalistir. Hann æfði áður taekwondo í átta ár og því er óhætt að segja að hann sé fjölhæfur bardagamaður.
„Félagsskapurinn er það langbesta við júdó. Hér eru allir bestu vinir. Allir mæta á æfingar og kasta hvor öðrum, það er bara það besta sem hægt er að gera,“ segir Ægir sem er að æfa tvo tíma alla daga auk þess sem hann er að þjálfa líka.
Backhold er skosk glíma sem svipar til þeirrar íslensku. „Ég mætti í æfingabúðir fyrir ári síðan og tók svo í kjölfarið þátt í móti í Skotlandi þar sem ég vann unglinga- og fullorðinsflokk. Svo sneri ég bara aftur núna.“ Það gerði Ægir með glæsibrag. Ægir er ekki hár í loftinu né sérstaklega þungur. Hann hefur þó gaman af því að kljást við stærri menn. „Mér finnst best að keppa á móti stórum gaurum. Þeir eru fleiri sem eru að æfa glímuna og því vantar alltaf svona litla gaura eins og okkur Bjarna, svo að ég er mjög vanur að keppa á móti þessum stóru.“
Tæknin skiptir miklu máli í júdó og backhold. „Það eru margir sem geta keyrt mann niður í gólfið en ef þú ert með nógu góða tækni þá eiga þeir ekki séns.“ Ægir stefnir á að komast í MMA eða blandaðar bardagalistir. „Það er draumurinn að komast í UFC. Miðað við það hvað ég er að æfa stíft, allar íþróttir sem ég get, þá held ég að það sé raunhæft.“
Gummi er krúttbangsinn okkar
Njarðvíkingurinn Bjarni Darri Sigfússon var búinn að hoppa mikið á milli íþrótta áður en hann endaði í bardagaíþróttum þar sem hann hefur verið mjög sigursæll. „Maður fór að synda og synti bara 300 ferðir. Maður fór í fótbolta og var bara að sparka í bolta. Hér er ég að æfa nokkrar íþróttir og alltaf eru mismunandi aðstæður, brögð og tækni í gangi. Hér er alltaf eitthvað nýtt,“ segir Bjarni. Á dögunum glímdi Bjarni við ólympíufarann Þormóð Ólafsson sem er rúmlega helmingi þyngri og stærri en Bjarni. „Ég skráði mig í opna flokkinn eftir vonbrigði í mínum flokki. Þetta var smá heppni og líka geta hjá mér. Ég lenti á réttu glímunum og endaði í úrslitum á móti Þormóði. Ég held að ég hafi aldrei skemmt mér svona mikið. Ótrúlega gaman að fá að glíma við svona góðan mann sem hefur verið á Ólympíuleikum. Ég átti nú ekki mikið í hann en þetta var ógeðslega gaman.“ Bjarni segir að lykillinn að góðum árangri liggi í mætingu og metnaði. „Það þarf bara metnað til þess að mæta. Ég hef séð fólk koma hérna sem er ekki í neinu formi og ekki með neitt jafnvægi. Síðan eftir tvo mánuði af góðum æfingum þá eru þeir eins og við flest hin. Þetta er bara fyrir alla. Þú getur verið hérna sama hvernig þú ert.“
Ynrgi keppendur eru á því að Guðmundur þjálfari sé drifkrafturinn í starfi deildarinnar en hann hefur unnið óeigingjarnt starf og hjálpað fjöldanum öllum af börnum að glíma við ýmsa erfiðleika. „Gummi er krúttbangsinn okkar. Hann er merkilegur og skemmtilegur maður sem kann mikið. Hann er ekki bara þjálfari heldur líka vinur okkar. Við förum til dæmis oft eftir keppni og fáum okkur að borða saman. Þá spjöllum við um lífið og tilveruna, þetta er ekki bara íþróttin.“
Líkt og fleiri efnilegir bardagakappar þá stefnir Bjarni hátt. „Þegar ég er kominn með svarta beltið í jódó þá ætla ég meira í taewkondo og box og vonandi í UFC. Gunnar Nelson gat það, svo af hverju ætti ég ekki að geta það,“ segir hann kokhraustur.
Júdó hentar líka fyrir pör
Njarðvíkingurinn Hermann Ragnar Unnarsson hefur verið að æfa júdó í 12 ár. Hann varð Íslandsmeistari enn og aftur fyrir skömmu og hefur tvisvar hafnað í öðru sæti á Norðurlandamóti. Það var ekki mikil gróska í greininni þegar Hermann steig sín fyrstu skref. „Það var eitthvað í Vogunum og Grindavík en ekkert hérna í Reykjanesbæ,“ segir Hermann sem hefur fylgst vel með uppganginum í Njarðvík þrátt fyrir að hafa keppt undir merkjum JR (Júdófélags Reykjavíkur) lengst af.
„Ég myndi nú segja það að Gummi dragi þennan vagn hérna í bæ. Hann er algjör frumkvöðull í þessu. Það fannst mér sérstaklega frábært að allir krakkar æfa frítt. Hann er góður með krakkana en hér eru margir mjög efnilegir.“ Hermann telur að í yngri flokkum séu Njarðvíkingar og JR best á landinu. Hermann segist ekki eiga mikið eftir af ferlinum en ætlar að klára með stæl. „Ég ætla að vinna næsta Norðurlandamót og eftir það er ég hættur,“ segir hann léttur í bragði. Nú er svo komið að Hermann hefur náð að draga Ástu Mjöll, kærustuna sína í júdóið, en hún byrjaði að æfa um áramótin. „Hún vildi bara prufa og hefur ægilega gaman að þessu. Hún er grjóthörð og maður á fullt í fangi með hana. Hún er mjög efnileg.“
Ásta segist hafa mætt á öll júdómót frá því að hún byrjaði með Hermanni. „Mér fannst orðið leiðinlegt að horfa bara á og vera ekki með, þannig að ég ákvað bara að mæta á æfingu.“
Ásta bætir við að fleiri stelpur mættu kíkja í júdó en hún er aðallega að kljást við stráka á æfingum. „Þetta er samt mjög gaman og þeir eru alveg góður við mig strákarnir. Það er alltaf tæknin sem vinnur,“ segir Ásta. Hún viðurkennir að það geti verið skrítið að takast á við unnustann en ótrúlega gaman þegar hún nær að skella honum í gólfið. „Ég myndi segja að þetta sport henti öllum og það er fínt fyrir okkur stelpurnar að kunna að verja sig,“ segir Ásta sem er að finna sig vel í júdó og stefnir á að keppa strax í haust.
Yngri kynslóð að taka við
Guðmundur Stefán Gunnarsson þjálfari segir vöxt júdódeildarinnar hafa verið ofar öllum vonum. Síðustu tvö til þrjú ár hefur verið stöðugur fjöldi sem æfir hjá deildinni og svo virðist sem júdó hafi fest sig í sessi. „Ég held að við séum komin til að vera. Við höfum blásið á þessar sögur um að það sé erfitt að koma hingað með einhverja nýja íþróttagrein. Það er bara spurning um að byrja,“ segir Guðmundur. „Besta auglýsingin er gott orðspor. Ég held og vona að það sé það sem er að draga fólk að,“ bætir hann við.
Starfið er sérstaklega gefandi fyrir Guðmund og hann ætlar sér að halda áfram ótrauður.
„Þetta er ótrúlega skemmtilegt starf. Að vinna með fólki og að fá fólk með sér. Tilgangurinn minn hér er að hjálpa öðrum, það gefur manni svo mikið. Hér hafa ótrúlega margir vaxið, aðallega andlega þá en líka í íþróttinni. Íþróttin er þó aðallega til þess að hjálpa manni í lífinu í mínum huga.“
Guðmundur segist ekki hafa miklar áhyggjur af framtíð félagsins. Nú sé yngri kynslóð tilbúin að taka við keflinu. „Ég var drifkrafturinn í þessu. Núna er unga kynslóðin að taka við. Þau eru í stjórn og eru að taka virkan þátt í starfinu. Ég sé mína vinnu halda áfram þó svo að ég verði ekki hérna. Þó svo að ég ætli mér að vera hérna alla ævi, en maður veit aldrei.“