Jovana Lilja: Höldum áfram á sömu braut
Bakvörðurinn Jovan Lilja Stefánsdóttir var í dag valin í úrvalsliðið í Iceland Express deild kvenna fyrir umferðir 10-17. Jovana Lilja er grimmur varnarmaður og jafnan setti til höfuðs skæðustu sóknarmönnum andstæðinga Grindavíkur. Jovana er ekki einvörðungu slyngur varnarmaður heldur hefur hún bætt sig töluvert í þessum öðrum hluta Íslandsmótsins. Í fyrsta hluta var Jovana með 4,8 stig að meðaltali í leik en gerir nú 9,5 stig að meðaltali í leik.
,,Ég reyni að gera það 120% sem Igor þjálfari leggur upp fyrir mig í hverjum leik. Á meðan ég fæ hlutverk og er að skila því vel þá er ég sátt,” sagði Jovana í samtali við Víkurfréttir.
,,Þetta virðist ganga vel hjá okkur í Grindavík þessa dagana og við ætlum okkur bara að vera áfram á sömu braut,” sagði Jovana en Grindavík tapaði þarsíðasta deildarleik gegn KR á útivelli og viðurkenndi varnarjaxlinn að bikarúrslitaleikurinn gæti hafa verið Grindvíkingum ofarlega í huga gegn KR.
,,Við verðum bara að setja Laugardalshöllina til hliðar næstu daga því við mætum Fjölni annað kvöld og hvert stig er dýrmætt. Við munum leggja okkur fram við að ná 1. sætinu í deildinni og ef við spilum góða vörn þá er ég ekki í neinum vafa um það að við getum unnið fleiri leiki,” sagði Jovana.
Í þessum hluta deildarkeppninnar lék Jovana 8 leiki með Grindavík, spilaði í 228 mínútur, var með 76 stig, 7 stolna bolta, 29 villur, 29 stoðsendingar og 23 fráköst. Annasamir dagar eru framundan hjá Jovönu þar sem hver stórleikurinn rekur annan á næstunni enda stutt í bikarúrslitaleikinn og úrslitakeppnina í deildarkeppninni.
VF-Mynd/ [email protected] – Jovana með verðlaunin sem leikmaður í úrvalsliði umferða 10-17 í Iceland Express deild kvenna.