Jósef hugsanlega á heimleið
Grindvíkingurinn Jósef Kristinn Jósefsson sem samdi við PSFC Chernomorets Burgas í Búlgaríu í vetur, vill núna ólmur losna frá félaginu. Jósef segir búlgarska félagið ekki hafa staðið við sínar skuldbindingar en hann samdi við félagið til þriggja ára í vetur.
Aðspurður hvort hann hafi í hyggju að leika með Grindavík takist honum að losna segist Jósef ekki vera að hugsa um það núna, hann vilji bara ganga frá sínum málum í Búlgaríu.
Jósef er 21 árs gamall og lék með U21-landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins en var ekki valinn fyrir lokakeppnina í Danmörku en meiðsli settu strik í reikninginn.