Jón verður líklega með gegn Njarðvík
Jón Nordal Hafsteinsson, leikmaður Íslandsmeistara Keflavíkur, verður að öllum líkindum klár í slaginn á sunnudag þegar risaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur fer fram í Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar.
Jón hefur átt við meiðsli að stríða í öxl síðustu 3 vikurnar en lék með Keflvíkingum gegn Snæfell á dögunum. Hann hvíldi þó gegn KR þegar Keflavík nældi sér í tvö eftirminnileg stig í DHL – höllinni.
„Ég stefni að því að vera með á sunnudaginn og er búinn að fara á tvær æfingar í þessari viku og svo er ég einnig í sjúkraþjálfun hjá Fal Daðasyni,“ sagði Jón.
Jón er sem kunnugt er einn af lykilmönnum í Keflavíkurliðinu og mikilvægt fyrir liðið að hafa hann með sér í stórleiknum á sunnudag.