Jón og Pálína best hjá Keflavík
Jón Norðdal Hafsteinsson og Pálína Gunnlaugsdóttir voru í gær kjörin bestu leikmenn meistaraflokka Keflavíkur í körfuknattleik.
Keflvíkingar fögnuðu innilega með aðstandendum og stuðningsmönnum liðsins en þriggja ára eyðimerkurgöngu lauk í ár þar sem bæði kvenna- og karlaliðin fögnuðu Íslandsmeistaratitlum.
Þau Jón og Pálína voru að sjálfsögðu einnig í liði ársins, en með þeim voru Gunnar Einarsson, Rannveig Randversdóttir og Magnús Þór Gunnarsson.
Framfaraverðlaun ársins hlutu þau Rannveig og Sigurður G. Þorsteinsson og varnarmenn ársins voru þau Pálína og Gunnar.
VF-mynd/Þorgils - Jón og Pálína ásamt Birgi Bragasyni, formanni deildarinnar.