Jón Norðdal: Sverrir nær að kreista fram sigur
Bikarúrslitin á morgun
Keflvíkingurinn Jón Norðdal Hafsteinsson spáir því að Suðurnesjaliðin hampi bæði sigri á morgun þegar úrslitaleikir Powerade-bikarsins fara fram í Laugardalshöll. Breiður hópur Grindvíkinga mun vega þungt að mati Jóns í karlaleiknum en báðir leikirnir verða fremur jafnir að hans mati.
Grindavík-Stjarnan:
„Þetta verður hörkuleikur enda eru bæði lið mjög vel mönnuð. Bæði lið hafa mikla breidd. Stjarnan er búin að tapa síðustu leikum í deildinni, á meðan Grindavík hefur verið að vinna sína leiki. Það gæti virkað sem eldsneyti fyrir Stjörnuna, sem farið er að hungra eftir sigri,“ segir Jón
„En þetta er allt annar leikur í svona bikar og bæði lið mæta dýrvitlaus til leiks. Marvin og Jovan verða að spila vel fyrir Stjörnuna og Garðbæingar að halda útlendingunum í Grindavík í skefjum. Hjá Grindavík verða Þorleifur og Siggi Þorsteins að eiga góðan leik og Grindavík verður að stoppa Marvin og Justin Shouse. Þetta verður hörkuleikur, tippa á að Sverrir nái að kreista fram fjögurra stiga sigur fyrir Grindavík. Svo fer hann að halda með Arsenal,“ sagði Jón léttur í bragði.
Keflavík- Valur:
„Valskonur eru búnar að fá nýja útlending sem við þekkum vel,“ en þar á Jón við Jalessa Butler fyrrum leikmann Keflvíkinga. „Hún kemur með mikið inn í liðið. Síðast þegar þessi lið spiluð þá rúllaði Valur yfir Keflavík á Sunnubrautinni. Það er eitthvað sem Keflavík gleymir ekki. Keflavík verður fyrst og fremst að stoppa Kristrúnu og Butler. Þetta verður hörkuleikur sem gaman verður að horfa á. Ungu stelpurnar eiga eftir að spila stóra rullu í þessum leik undir stjórn Pálínu og Birnu. Ég tippa á sjö stiga sigur Keflavíkur,“ sagði spámaðurinn Jón að lokum.