Jón N. Hafsteinsson: Áttum að nýta sóknirnar betur
Snæfell tók í kvöld 1-0 forystu í einvíginu gegn Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Lokatölur leiksins voru 84-67 Snæfell í vil. Jón N. Hafsteinsson átti þokkalegan dag í liði Keflavíkur með 10 stig og 11 fráköst en hann var ekki kátur með sóknarleik liðsins en var aftur á móti þokkalega sáttur við vörnina sem Keflavík lék í síðari hálfleik.
,,Við byrjuðum betur í kvöld en svo misstum við Snæfell fram úr okkur og lentum í villuvandræðum í kjölfarið. Þetta voru frekar ódýrar villur hjá okkur og ekki beint í takt við leikinn,” sagði Jón sem sjálfur fékk fjórar villur í leiknum og þar af þrjár í fyrri hálfleik.
,,Við áttum alltaf möguleika á því að komast að nýju inn í leikinn í kvöld en við nýttum sóknirnar okkar ekki nægilega vel. Nú erum við komnir upp við vegg og verðum bara að landa sigri á laugardag,” sagði Jón en liðin mætast í Sláturhúsinu á laugardag kl. 16:00 þar sem Keflavík verður að landa sigri til þess að komast í oddaleik í Stykkishólmi.
Tony Harris lék í 22 mínútur í kvöld með Keflavík en hann hefur átt við meiðsli að stríða. Tony gerði níu stig í leiknum en Jón Hafsteinsson sagði í samtalinu við Víkurfréttir að þegar líða tók á leik fóru meiðsli Tony að segja til sín og gat hann minna og minna beitt sér eftir því sem leið á leikinn.
VF-mynd/ Úr safni