Jón Kr: Vorum pínu skrýtnir úti í bíl
Ætlar að rifja upp gömlu Keflavíkursöngvana
Gamla Keflavíkurgoðsögnin Jón Kr. Gíslason var mættur Keflavíkurmegin í Ljónagryfjuna í gær þegar lið Keflvíkinga sótti b-lið Njarðvíkinga heim. Jón hafði sérstaka ástæðu til þess að gleðjast yfir leiknum, en auk sigurs Keflvíkinga þá lék Daði Lár sonur Jóns sinn fyrsta leik með Keflvíkingum. Daði hefur alla tíð verið Stjörnumaður en fjölskyldan hefur verið búsett í Garðabæ um árabil.
„Mér líst ofsalega vel á þetta. Ég þekki þetta umhverfi í Keflavík og þegar hann nálgaðist mig drengurinn og vildi breyta til þá fannst mér spennandi að hann færi í hópinn hans Sigga Ingimundar,“ segir Jón.
Sonur Jóns Kr. til liðs við Keflvíkinga.
„Hann hefur vantað svolítið gleðina drenginn í boltanum og ég er að vonast til þess að þetta breyti því. Það hentar honum ofsalega vel þetta umhverfi hjá Sigga, það er hraði og læti á æfingum,“ bætir bakvörðurinn fyrrum við. Hann fer ekki leynt með stoltið sem fylgdi því að sjá strákinn í Keflavíkurbúningnum.
„Ég get ekki neitað því að það var sérstök tilfinning að sjá strákinn þarna í gömlu treyjunni minni. Við vorum eiginlega báðir pínu skrýtnir úti í bíl eftir leikinn, okkur fannst þetta mjög sérstakt báðum. Þetta er bara gaman og nú fer maður að rifja upp gömlu Keflavíkursöngvana,“ segir Jón og hlær. Daði Lár fékk búning númer 14, en eins og kunnugt er lék Jón sjálfur með það númer á bakinu hjá Keflavík.
„Við vitum alveg að hann er kannski ekki að fara að leika einhvert stórt hlutverk núna en við erum að hugsa kannski til lengri tíma. Það var frekar skrýtið að sjá afkvæmi sitt í einhverjum öðrum búning en sem betur fer var það Keflavík,“ sagði herra Keflavík að lokum.